Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hugað að sameiningu sveitarfélaga í flestum landshlutum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður K. Þórisson
Formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaga fara nú fram á tveimur landsvæðum á Norðurlandi og meirihluti er fylgjandi sameiningu fimm sveitarfélaga á Suðurlandi. Á fjórum landsvæðum til viðbótar eru ýmsir kostir til skoðunar.

Nú er komið á þriðja mánuð frá því kosið var í fyrsta sinn til sveitarstjórnar í Múlaþingi, nýjasta sveitarfélagi landsins, sem varð til við sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi. Og vinna við sameiningu sveitarfélaga heldur áfram.

Lengst komið á Norðurlandi

Lengst er vinnan komin á Norðurlandi þar sem tvenns konar sameining er í bígerð. Nágrannasveitarfélögin Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit eiga í formlegum viðræðum um sameiningu og þar er stefnt að kosningum 5. júní. Í Austur-Húnavatnssýslu hafa sveitarstjórnir allra sveitarfélaga í sýslunni samþykkt að hefja formlegar viðræður. Og eins og í Þingeyjarsýslu er markmiðið að kjósa um sameiningu 5. júní.

Meirihluti hlynntur sameiningu á Suðurlandi

Í vinnu við sameiningu fimm sveitarfélaga á Suðurlandi, hefur verkefnastjórn lagt til að hafnar verði formlegar viðræður. Í nýrri viðhorfskönnun reyndust tæp 70% íbúa sveitarfélaganna hlynnt sameiningu.

Ýmsir kostir í skoðun víða

Annars staðar á landinu hafa ýmsir kostir verið til umræðu. Þannig benti formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar á fjárhagslegan ávinning af sameiningu við Bolungarvík og Súðavík. Þá hefur sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps fundað með nágrönnum sínum um ýmsa valkosti sameiningar. Í Kjósarhreppi er farið að huga að því hvað þarf að skoða í þessu sambandi og hjá Dalabyggð er verði að greina helstu valkosti sameiningar. 

Frumvarp um íbúalágmark og aukinn fjárstuðningur 

Það eru tvö veigamikil atriði fyrst og fremst sem hvatt hafa sveitarstjórnarmenn til að huga að sameiningu sveitarfélaga. Annars vegar er það frumvarp um lágmarksíbúafjölda, sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi. Þar er miðað við 250 íbúa lágmark árið 2022 og 1000 íbúa árið 2026. Þá hafa reglur um aukinn fjárstuðning Jöfnunarsjóðs við sameiningu sveitarfélaga orðið mörgum hvatning til að hefja viðræður um sameiningu.