Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Geta ekki endurfjármagnað út af uppgreiðslugjaldi

Breki Karlsson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Formaður Neytendasamtakanna segir að uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs, sem nú hefur verið dæmt ólögmætt, hafi valdið lántakendum miklum skaða og komið í veg fyrir að fólk hafi getað fært sig yfir í önnur hagstæðari lán.

 

Fjölskipaður héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að Íbúðalánasjóði hefði verið óheimilt að krefjast þóknunar fyrir uppgreiðslu lána. Þórir Skarphéðinsson lögmaður, sem rak málið fyrir hönd hjóna sem voru rukkuð um tæpar fjórar milljónir þegar þau ætluðu að greiða upp sitt lán, telur að málið hafi fordæmisgildi fyrir aðra lánþega sjóðsins.

Í heild tóku 14 þúsund manns lán hjá Íbúðalánasjóði þar sem uppgreiðslugjalds var krafist en hætt var að veita lán með þessum skilyrðum árið 2013. Þúsundir hafa þó þegar greitt þetta gjald og því gæti sjóðurinn þurft að greiða allt að tuttugu milljarða til baka.

Nú þegar hafi tugir manna haft samband við Þóri til að afla upplýsinga um réttarstöðu sína og hann telur viðbúið að fleiri hafi samband á næstu dögum. Dæmi eru um að fólk hafi greitt allt að sex milljónir króna í uppgreiðsluþóknun.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heldur utan um lánasafn Íbúðalánasjóðs en málið er hins vegar á könnu fjármálaráðuneytisins. Þar er verið að fara yfir dóminn en talið er líklegt að málinu verði áfrýjað.

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir að margir hafi sett sig í samband við samtökin á liðnum árum út af þessu gjaldi. Hann segir dæmi um að fólk hafi verið rukkað um allt að 17 prósenta uppgreiðslugjald og því hafi það ekki getað fært sig yfir í hagstæðara lán. Tjón lántakenda sé því mikið.

„Það má segja að fólk sem var að taka þessi lán sé læst inni út af þessu uppgreiðslugjaldi og hefur ekki getað endurfjármagnað á betri vöxtum,“ segir Breki.