Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Fólk verður reitt og það verður mikill hiti“

07.12.2020 - 19:25
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Tilvist Árbæjarlóns er orðið að miklu hitamáli á meðal íbúa í Árbæ. Þetta segir formaður íbúaráðsins. Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík telur að ákvörðun Orkuveitunnar um að tæma lónið sé ekki í samræmi við deiliskipulag. Forstjóri Orkuveitunnar segir að fyrirtækinu sé ekki lengur heimilt að stöðva náttúrulegt rennsli Elliðaáa.

Elliðaárstöð var vígð árið 1921 og markaði hún upphaf rafvæðingar í Reykjavík. Stöðin var rekin allt til ársins 2014 þegar bilun varð í henni og í kjölfarið var ákveðið að hætta að nota hana, enda var það ekki talið svara kostnaði að endurræsa hana.

Ekki nógu góð kynning

Árbæjarstífla hefur hingað til myndað Árbæjarlón sem hefur þjónað þeim tilgangi að halda vatnshæð stöðugri, en sá tilgangur er ekki lengur til staðar, eftir að hætt var að nota Elliðaárstöð. Orkuveitan taldi sér ekki heimilt að halda áfram að trufla náttúrulegt rennsli Elliðaánna og er því búin að tæma lónið, sem breytir ásýnd svæðisins mikið frá því sem verið hefur. Þessi breyting hefur reynst mjög umdeild.

„Já þetta er mjög mikið hitamál og ég hef fullan skilning á þeim tilfinningum sem bærast í brjóstum hverfisbúa í þessu máli. Ég er sjálfur alinn upp á þessum bakka,“ segir Þorkell Heiðarsson, sem er varaborgarfulltrúi en einnig formaður íbúaráðs Árbæjar og formaður stýrihóps um Elliðaárdal sem hefur það hlutverk að fara yfir þetta umdeilda mál, leiða saman ólík sjónarmið og skila tillögum um framtíð svæðisins til borgaryfirvalda.

„Það var ekki staðið nógu vel að kynningu á þessu máli, alls ekki. Og þess vegna kom þetta öllum í opna skjöldu, þar á meðal mér og öðrum íbúum. Og það þýðir einfaldlega að fólk verður reitt og það verður mikill hiti í málinu. Þetta er mikið tilfinningamál og það er mjög eðlilegt að svo sé,“ segir Þorkell.

Mjög skiptar skoðanir

Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík hefur skilað stýrihópnum greinargerð þar sem fram kemur að hann telur þessa breytingu á svæðinu ekki í samræmi við deiliskipulag. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, vildi ekki veita fréttastofu viðtal um málið, en sagði í skriflegu svari að fyrirtækið hefði ekki heimild til þess að trufla rennsli Elliðaánna, nú þegar tilgangur lónsins væri horfinn. Heimildir í starfsleyfi, lögum og reglugerðum sem fjölluðu um rekstur stöðvarinnar væru bundnar því að stöðin væri í rekstri. Málið sé í höndum stýrihópsins sem eigi að skila tillögum í vor.

Þorkell segir að sumari íbúar vilji hafa lón, en aðrir ekki.

„Það finnst íbúar sem vilja hafa lón í mismunandi stöðu, það finnast íbúar sem hafa ekki lón, það finnast íbúar sem vilja stífluna áfram, það finnast fjölmargir íbúar sem vilja hana ekki. Þannig að það eru bara mjög skiptar skoðanir og þess vegna er svo mikilvægt að flýta sér hægt, vanda sig, fá upp á borðið öll sjónarmið í málinu og vinna þetta eins og fólk,“ segir Þorkell.

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Hér má sjá lengri útgáfu af viðtalinu við Þorkel Heiðarsson.