Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fátækari stúdentar hrökklast frekar úr námi

07.12.2020 - 02:15
Erlent · Danmörk · Evrópa · Fátækt · háskólar · Menntun
Mynd með færslu
 Mynd: Danmarks Radio
Meiri líkur eru á að stúdentar sem hafa tekjulágan bakgrunn hverfi frá námi við danska háskóla en þau sem betur eru stæð. Einu gildir þótt einkunnir úr framhaldsskóla séu svipaðar.

Þessar  niðurstöður greiningar dönsku hugveitunnar DEA, sem Jyllands Posten fjallar um, valda Mette Fjord Sørensen aðstoðarforstjóra Dansk Industri áhyggjum.

Hún segir það hryggja sig að hæfileikaríkt ungt fólk geti ekki leitað sér háskólamenntunar en það hafi verið talið höfuðeinkenni menntakerfis Danmerkur að hæfni réði för en ekki fjárhagur.

Því miður sýni þessi rannsókn að félagslegur bakgrunnur leiki of sterkt hlutverk í hvernig fólki gangi að mennta sig. 

Ane Halsboe-Jørgensen menntamálaráðherra Danmerkur segir háskóla þurfa að taka sig á, þeim beri að sjá til þess að aðstæður til náms séu þannig að hæfileikar dugi til að nemendur blómstri við nám sitt.

Anders Bjarklev formaður samtaka danskra háskólarektora kveður niðurstöðurnar koma sér á óvart en að bregðast þurfi við þeim. Háskólar beri ríka ábyrgð gagnvart stúdentum við að tryggja umhverfi þar sem allir fái notið hæfileika sinna. 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV