Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Verðum að geta treyst á ópólitíska dómara

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Það áhugaverðasta við dóm yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu er hversu vel dómurinn undirstrikar mikilvægi aðgreiningu framkvæmdavalds og dómsvalds. Þetta segir héraðsdómari og lektor. Borgarar landsins verði að geta treyst því að þeir fái úr sínum málum skorið fyrir dómurum sem séu ekki pólitískt skipaðir eða fylgi tilmælum ráðherra eða framkvæmdavalds.

Halldóra Þorsteinsdóttir, héraðsdómari og lektor, sagði í Silfrinu í morgun að dómur yfirdeildarinnar staðfesta óumdeilt brot á landslögum við skipun dómarana við Landsrétt. Þó sé áhugaverðast hversu áberandi mikilvægi sjálfstæði dómstóla gagnvart framkvæmdavaldinu sé undirstrikað í dómnum. 

„Dómstóllinn nýtir hvert tækifæri til að árétta þetta. Og það er mjög fordæmisgefandi, ekki bara fyrir okkur, heldur almennt í Evrópu. Þetta er áratugalöng umræða og okkar kerfi byggir á þessu,” sagði Halldóra. 

„Og það er ekki rétt sem margir segja, að það þurfi ekki bara að huga að sjálfstæði dómstóla gagnvart framkvæmdavaldinu heldur þurfi líka að huga að annarri pólitík.”  

„Það er lykilatriði að framkvæmdavaldið hlutist ekki pólitískt til við skipan dómara. Við búum hér við þrígreiningu ríkisvalds og það er temprun valdhafa. Borgarinn þarf að geta treyst því að hann geti fengið úr sínum málum leyst fyrir dómi fyrir óháðum og hlutlausum dómara sem sé engan veginn pólitískt tengdur ráðherra. Eðas sé líklegur til að fylgja boðvaldi eða fyrirmælum ráðherra eða framkvæmdavaldsins yfir höfuð.” 

Halldóra sagði annað í réttarkerfinu, sem er sömuleiðis útlistað í dómnum, ekki síður mikilvægt.

„Það er er eftirlitshlutverk dómstóla yfir framkvæmdavaldi og löggjafanum, sem er grundvallaratriði, og stjórnarskrárbundið, í íslenskri stjórnskipan,” sagði hún. „Að dómstólar eiga að dæma um það að hvort framkvæmdavaldið og störfum þeirra sé háttað í samræmi við lög og sömuleiðis hvort lög frá Alþingi samræmist stjórnarskrá.”