Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segja óréttmætt að þvinga fólk í viðskipti

Tölva
 Mynd: Pexels.com
Með nýju frumvarpi Fjármála- og efnahagsráðherra er gert ráð fyrir því að stjórnvöld sendi gögn í stafrænt pósthólf einstaklinga og lögaðila. Hver og einn sem hafi kennitölu eigi sitt pósthólf. Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna að fólk þurfi að hafa rafræn skilríki til að komast í þetta pósthólf. Þau segja með öllu óréttmætt að þvinga neytendur í viðskipti við einkafyrirtæki í einokunaraðstöðu svo það geti móttekið sendingar frá stjórnvöldum.

Í samráðsgátt stjórnvalda segir að með frumvarpinu sé gert ráð fyrir að réttaráhrif af sendingum í stafrænt pósthólf séu hin sömu og ef sendur væri bréfpóstur. Pósthólfið skuli aðeins vera aðgengilegt með rafrænum skilríkjum.

Við birtingu í rafrænu pósthólfi teljast gögn á borð við opinberar tilkynningar, ákvarðanir og ákvaðir vera birtar viðtakanda. Hagsmunasamtök heimilanna gera athugasemd við þá ráðstöfun í umsögn um frumvarpið.

Þau segja réttaráhrif slíkrar birtingar þurfi að vera háð því skilyrði að umrædd gögn hafi raunverulega verið móttekin með staðfestingu af einhverju tagi.  Að öðrum kosti skapist hætta á að meðferð mála sem varða hagsmuni einstaklinga fari fram án vitundar þeirra.

Fram kemur í samráðsgáttinni að markmið lagasetningarinnar sé að auka gagnsæi, réttaröryggi og hagræði á mörgum sviðu. Stafræn þjónustugátt var hluti stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2017 og hálfu ári síðar var ákveðið að samskipti hins opinbera við almenning og fyrirtæki skyldu verða stafræn 2020, 

Á samráðsgátt stjórnvalda segir að island.is sé vísir að stafrænum samskiptum en Hagsmunasamtök heimilanna gera harðar athugasemdir við að nú bjóði aðeins eitt fyrirtæki upp á stafræn skilríki. 

„Að mati samtakanna er það með öllu óréttmætt að þvinga neytendur í viðskipti við einkafyrirtæki í einokunarstöðu, með því að krefjast auðkenningar með rafrænum skilríkjum svo þeir geti sótt réttindi sín á grundvelli laga. Dæmi eru um að einstaklingar hafi orðið fyrir alvarlegum réttarspjöllum af þessum ástæðum.“

Hins vegar fagna samtökin hugmyndum hins opinbera að gefa út eigin rafræn skilríki og hvetur til að undirbúning þess verði flýtt.