Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Mikilvæg en brothætt samstaða í íþyngjandi aðgerðum

06.12.2020 - 14:57
Mynd með færslu
 Mynd: Silfrið - RÚV
Það er óumdeilt að sóttvarnaraðgerðirnar eru íþyngjandi og eðlilegt að deilt sé um útfærslur á þeim, þó að flestir séu sammála um markmiðið. Þetta segir Vilhjálmur Árnason siðfræðingur. Það hafi verið meiri ótti í kring um faraldurinn þegar hann hófst, heldur en nú, og það gæti verið ein ástæða þess að sprungur séu farnar að myndast í samstöðuna.

„Það er ákveðinn ótti kannski, skynsemin er dóttir óttans, segja menn. Og síðan vorum við líka mjög heppin með það hvernig að þessu var staðið. Þarna voru sérfræðingar, fagfólk, sem hafði mjög góðan hátt á að nálgast þjóðina,” sagði Vilhjálmur í Silfrinu í morgun. „Fólk er auðvitað að fórna mörgu og það er alveg eðlilegt að ágreiningurinn sé. Svo eru allar þessar aðgerðir auðvitað umdeilanlegar. Ég held að í meginatriðum þá föllumst við á markmiðið, og ég held að það sé ekkert mjög mikill ágreiningur um það.”

„Við viljum komast í gegn um þetta með sem minnstum tilkostnaði, með sem fæstum dauðsföllum og alvarlegum veikindum. Það er markmiðið. Síðan er bara mjög eðlilegt að deila um alls konar útfærslur á leiðum.” 

Framlínan skapar fordæmið 

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, var líka gestur Fanneyjar Birnu Jónsdóttur í morgun. 

„Til að byrja með eru auðvitað engar góðar ákvarðanir í þessu. Það sem er verið að biðja fólk um að gera er mjög óeðlilegt, en tekur mið af þeim aðstæðum sem eru. Það er raunverulega verið að biðja okkur sem samfélag, er að setja okkur í spor annarra sem eru að verða fyrir mestum áhrifum af þessu og taka hagsmuni þeirra fram fyrir okkar eigin hagsmuni,” sagði Þórður. 

„Það sést á könnunum Gallup að það hefur verið mikil sátt við þessar aðgerðir og hvernig þeim hefur verið framfylgt. Og fólkið í framlínunni hefur staðið sig feykilega vel við alveg óraunverulegt álag.” 

„En þetta er brothætt,” sagði Þórður. „Þegar fólk í framlínunni verður uppvíst að því að haga sér með öðrum hætti en það er að biðja aðra um að haga sér.”