Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Meira svigrúm hjá mörgum til þess að fara í stór kaup“

Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Efnahagskreppan hefur enn sem komið er lítil sem engin áhrif haft á fasteignamarkaðinn. Eignir seljast sem aldrei fyrr og verð fer stöðugt hækkandi. Formaður Félags fasteignasala segir að það sé mjög mikið að gera.

Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið kreppu og hægagangi á flestum sviðum efnahagslífsins. Einn markaður virðist þó ekki hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum, að minnsta kosti ekki enn sem komið er, og það er fasteignamarkaðurinn.

„Fasteignamarkaðurinn hefur bara verið nokkuð líflegur upp á síðkastið, í rauninni miklu líflegri en við gerðum ráð fyrir þegar þessi veirufaraldur hófst. Við sjáum að viðskipti hafa til að mynda stóraukist og við erum komin í svipaðan fjölda og við sáum þegar mest lét á fasteignamarkaði árið 2007,“ segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Landsbankanum.

Minni áhrif

Þegar þróun á fjölda kaupsamninga er skoðuð má sjá að undanfarin tvö ár hefur fjöldi samninga haldist nokkuð jafn, en þeim hefur svo fjölgað nokkuð mikið síðan faraldurinn skall á.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Það er búið að vera mjög gott að gera í fasteignasölu alveg síðan í vor, eftir að þessu fyrra covidi lauk. Og enn sem komið er hefur það haldið áfram og verður vonandi eitthvað áfram,“ segir Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala. „Nóvember var bara furðu góður, við höfum verið að taka saman tölur, og þetta hefur haft minni áhrif en ég gerði ráð fyrir.“

Una segir líklegt að ein ástæða skýri að mestu hversu mikið líf er á þessum markaði um þessar mundir.

„Það eru að líkindum þessar vaxtalækkanir sem var gripið til í kjölfar faraldursins, þá voru margir sem höfðu aukið svigrúm til þess að fara út í fasteignakaup.“

Kjartan tekur undir þetta.

„Það sem gerðist eftir fyrra covidið var að vextir voru lækkaðir og bankarnir opnuðu sig svolítið með að lána yngra fólkinu og fyrstu kaupendum. Á sama tíma er kaupmáttur að stórum hluta í góðu lagi hjá mörgum hópum þó það eigi ekki við alla hópa. Og svo það sem skiptir ekki síður máli að það er töluvert gott framboð af eignum á markaðnum. Og þessi hlutir þurfa að fara saman, að það sé framboð, að það séu kaupendur og að það sé gott lánsfjármagn.“

Þá segir Una að fleira spili inn í, meðal annars það hversu óvenjuleg þessi kreppa sé.

„Hjá til að mynda mjög mörgum hefur sparnaður aukist, það er minna um utanlandsferðir og það er meira svigrúm hjá mörgum til þess að fara í stór kaup á borð við húsnæði.“

Minni spenna á leigumarkaði

Þegar meðalverð á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu er skoðað kemur í ljós að það hefur hækkað nokkuð undanfarin ár, og mesta hækkunin hefur orðið eftir að faraldurinn skall á. Svo virðist því sem algjört hrun á útleigu íbúða á Airbnb hafi ekki áhrif á verðið.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Framboð ætti að vera að aukast, það er verið að byggja töluvert, ætti þetta ekki að hafa áhrif til lækkunar, ef framboð er að aukast?

„Jú vissulega,“ segir Una. „Framboð hefur verið nokkuð mikið hérna og það er kannski að gera það að verkum að hækkanirnar eru ekki ennþá meiri. Framboð virðist vera ágætt og eins og þú segir, þessar Airbnb íbúðir, þær hafa sennilega aðallega skilað sér í almenna leigu. Því við sjáum spennu lækka verulega á leigumarkaði. Verðhækkanir hafa verið mjög litlar á milli mánaða, í einhverjum tilfellum hefur leiguverð lækkað, þannig að þar koma Airbnb áhrifin inn á fasteignamarkað, aðallega í gegnum leigumarkað.“

„Maður skilur það bara mjög vel“

Töluvert hefur verið byggt af íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu, til dæmis á Hlíðarenda, á Kirkjusandi og í Vogahverfinu.

„Það er búið að vera gott framboð en við sjáum að það gengur á þessar eignir og þessi verkefni, og mörg þeirra eru að klárast, og hafa verið að klárast síðustu misserin. Það sem maður óttast aðeins í augnablikinu er að það verði einhver bið á næsta ári eða síðari hluta næsta árs eftir að næstu verkefni sem menn eru að byrja á komi í sölu,“ segir Kjartan.

Þótt faraldurinn hafi ekki haft mikil áhrif á markaðinn segir Kjartan að hann hafi haft mikil áhrif á það hvernig menn haga sér við kaup og sölu á eignum.

„Já það er alveg ljóst að það er viss hópur sem er að koma miklu minna, eldra fólkið er að koma minna á opin hús og eldra fólk er síður að setja á sölu eða að fá fólk inn á heimili til sín akkúrat núna. Og maður skilur það bara mjög vel. Og varðandi opin hús, menn hafa verið að bóka tíma og það er verið að lengja þann tíma sem við höfum verið að sýna og erum að gefa fólki meira svigrúm. Þannig að auðvitað hefur þetta áhrif, eins og á alla í þessu þjóðfélagi,“ segir Kjartan.