Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Lágstemmd og vönduð Snerting

Mynd: - / Veröld

Lágstemmd og vönduð Snerting

06.12.2020 - 10:00

Höfundar

Fjórtánda skáldsaga Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snerting, er vönduð smíð og snyrtilegt skáldverk sem hefði þó mögulega mátt við meiri óreiðu, segir Maríanna Clara Lúthersdóttir gagnrýnandi.

Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar:

Eldri maður lokar veitingastað í Reykjavík árið 2020 vegna COVID, ungur maður flýr Híróshima í kjölfar þess að kjarnorkusprengju er varpað á borgina við lok síðari heimsstyrjaldar. Milli þessara tveggja atburða er langur vegur en Ólafi Jóhanni Ólafssyni tekst af leikni að spinna fínlegan en jafnframt óvæntan örlagavef sem tengir þá saman.

Snerting er fjórtánda skáldsaga Ólafs Jóhanns sem er Íslendingum að góðu kunnur, bæði fyrir afrek sín á bókmenntavellinum sem og á sviði viðskipta. Snerting sver sig að ýmsu leyti í ætt við sum fyrri verka Ólafs, hann leiðir saman ólíka menningarheima, dregur upp mynd af ungum Íslendingi sem heldur til náms í erlendri stórborg og þá er hér einnig að finna minningarbrot óáreiðanlegs sögumanns.

Hér er sögð saga veitingamannsins og ekkilsins Kristófers sem við upphaf bókar lokar veitingastaðnum sínum og leggur eldhúshnífana á hilluna. Ástæðan er COVID sem leikur þennan bransa sem og aðra grátt. Auk þess er hann orðinn 75 ára og kannski kominn tími til að setjast í helgan stein. En það kemur fleira til, smám saman skilst lesandanum að læknir Kristófers hafi einhverjar áhyggjur af minninu hjá honum og hefur hann þess vegna hvern morgun á því að gera nokkrar æfingar til að virkja minnisstöðvarnar. En síðast en ekki síst á Kristófer ýmsu ólokið áður en hann fær frið í sín bein og heldur hann því af stað til Japans, nánar tiltekið til Híróshima, í miðri fyrstu bylgju COVID. Það kemur í ljós að meira en hálfri öld áður var Kristófer ungur námsmaður í London og nam þar hagfræði. Á einum degi tók líf hans stakkaskiptum þegar hann mætti ungri stúlku á japönskum veitingastað og ákvað í kjölfarið að hætta í skólanum og hefja störf sem uppvaskari á veitingastaðnum. Vinum sínum til furðu og jafnvel skelfingar, því þótt árið væri 1969 og bylting blómabarnanna í algleymingi er ansi stórt stökk frá London School of Economics og í uppvaskið á Nippon.

Eins og Ólafur Jóhann hefur áður gert vel í fyrri verkum sínum birtir hann okkur sögu aðalsöguhetjunnar í minningarbrotum sem smám saman raðast saman í heillega en þó ófullkomna mynd. Minningarnar eru frá skólaárunum í London og sambandinu við Míkó, ungu japönsku stúlkuna, en einnig frá því lífi sem hann lifði síðar á Íslandi, sambandinu við íslenska eiginkonu og stjúpdóttur, vini og kunningja. Kristófer virðist vera fremur ábyggilegur og traustur maður sem segir skýrt og skilmerkilega frá. En þegar líða fer á frásögnina fer lesandann að gruna að hann sé ekki fullkomlega áreiðanlegur sögumaður. Ítrekað lýsir hann atvikum eða samræðum við fólk sem hann skilur ekkert af hverju fyrtist við hann eða honum þykir ósanngjarnt í sinn garð en lesandanum þykir sýnt að eitthvað sé ósagt eða látið liggja á milli hluta. Inn í margræðar minningarnar blandast svo hugmyndin um að mögulega gangi Kristófer ekki lengur heill til skógar og verður það enn frekar til að gera frásögn hans á köflum tortryggilega.

Sagan er í aðra röndina byggð upp eins og ráðgáta, ef ekki spennusaga, því alla ævi hefur Kristófer spurt sig að því hvað hafi orðið um Míkó, stúlkuna sem hvarf sporlaust úr lífi hans nokkrum mánuðum eftir að þau kynntust fyrst. Lesandinn, sem ekki treystir Kristófer fullkomlega, leitar jafnframt vísbendinga í minningarbrotum hans. Sá möguleiki er fyrir hendi að aðskilnaðurinn hafi verið honum sjálfum að kenna hvort heldur óvart eða með vilja þótt hann kannist ekki við það. Þessi frásagnaraðferð heldur lesandanum vel við efnið og skapar bæði spennu og óvissu. Það sama er í raun uppi á teningnum þegar kemur að sambandinu við Ástu, eiginkonuna sem hann giftist nokkrum árum eftir ástarævintýrið með Míkó. Stjúpdóttur Kristófers og honum sjálfum virðist ekki bera saman um hversu gott hjónabandið var og það er ekki fyrr en undir lok bókar sem flest kurl virðast komin til grafar í þeim efnum.

Einn þráðurinn sem Ólafur spinnur snýr að hinu ólifaða lífi, því hliðstæða lífi sem við hefðum getað lifað og sem lifir nánast sjálfstætt innra með okkur og fylgir okkur alla ævi. Þetta er vissulega kunnugleg hugmynd en þó nær hún ágætu flugi hér og öðlast nýja vídd, sérstaklega þegar hún er sett í samhengi við sögu Híróshima. Annar þráður skáldsögunnar snýr að einmitt þeim skelfilegu atburðum sem urðu í Japan þegar bandamenn köstuðu kjarnorkusprengjum á Híróshima og Nagasaki árið 1945. Athyglinni er beint að afleiðingunum, einnig þeim ósýnilegu en þó afskaplega raunverulegu afleiðingum sem komu ekki í ljós fyrr en mörgum árum síðar og verða hér ekki kunn fyrr en við sögulok.

Stíll Ólafs á það til að vera á köflum örlítið flatur þótt íslenskan sé að öðru leyti óaðfinnanleg, en hér rímar stíllinn raunar vel við persónu Kristófers sjálfs sem hefur að sumu leyti lifað lífinu aðeins til hliðar við sjálfan sig. Þrátt fyrir hæku-smíði á yngri árum er hann ekki sérlega skáldlegur og virðist framan af í frásögninni skorta bæði ímyndunarafl og samkennd. Afskaplega vandaður, jafnvel snyrtilegur frásagnarmátinn fellur vel að persónu hans og ýtir undir þá tilfinningu að eitthvað sé ávallt ósagt.

Skáldsagan greinir frá sambandi ungs íslensks karlmanns og japanskrar konu árið 1969 og þó að dregin sé upp sannfærandi mynd af heimi japanskrar matargerðar og að einhverju marki tungumálinu og landinu sjálfu, hefði að ósekju mátt gera þessu sambandi þvert á menningarheima örlítið betri skil. Hér má nefna að hugmyndin um John Lennon og Yoko Ono, sem skreyttu forsíður blaðanna í kringum 1969, kemur ítrekað upp sem einhvers konar spegill eða hliðstæða við unga parið og hefði verið áhugavert að kryfja betur.

Það er athyglivert að samband Kristófers við Míkó er alltaf sveipað dulúð og jafnvel hálf óraunverulegt á meðan sambandið við föður hennar, Takahashi-san, eiganda veitingastaðarins, er í raun mun áhugaverðara og að sama skapi er persóna hans heillandi og margræð á meðan dóttirin er eins og draumur sem skreppur undan frekari skilgreiningum.

Sögulok eru ekki fyrirsjáanleg en frágangur sumra enda mögulega aðeins of snyrtilegur. Erfitt samband Kristófers við stjúpdóttur sína og flækjur í samskiptum þeirra fjara þannig dálítið út og sömuleiðis sjúkdómseinkenni hans. En engu að síður má finna á síðustu blaðsíðunum fíngerða von og friðsæld, þrátt fyrir undangengnar hörmungar söguhetjanna sjálfra og borgarinnar sem þau dvelja í og það er erfitt annað en að hrífast með.

Snerting er lágstemmt og vandað skáldverk sem hefði mögulega mátt við aðeins meiri óreiðu, en eins og vel smíðuð hæka segir Snerting stærri sögu en virðist við fyrstu sýn og sleppir lesandanum ekki auðveldlega.