Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Frjálsíþróttapar sem berst við kulda og klaka

Mynd: RÚV / RÚV

Frjálsíþróttapar sem berst við kulda og klaka

06.12.2020 - 16:32
Frjálsíþróttaparið Guðni Valur Guðnason og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir stefna á Ólympíuleikana í Tókýó næsta sumar. Þau hafa reynt að gera sitt besta í æfingabanni síðustu vikna, en segjast nú verða að fá að æfa á hefðbundinn hátt ætli þau að ná markmiði sínu.

Frjálsíþróttaparið Guðni Valur Guðnason og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir stefna á Ólympíuleikana í Tókýó næsta sumar. Þau hafa reynt að gera sitt besta í æfingabanni síðustu vikna, en segjast nú verða að fá að æfa á hefðbundinn hátt ætli þau að ná markmiði sínu.

Guðbjörg Jóna og Guðni Valur eru meðal fremsta íþróttafólks þjóðarinnar. Þau eru bæði í Ólympíuhóp frjálsíþróttasambandsins og stefna til Tókýó næsta sumar. Þau búa þó við aðrar aðstæður en kollegar þeirra annars staðar í heiminum því þau geta ekki æft sína íþrótt í æfingabanni stjórnvalda. Æfingaaðstaða þeirra er bókstaflega botnfrosin. Þau segjast þó hafa reynt að spila eins vel úr sínum spilum og hægt er.

Að undanförnu hefur Guðbjörg Jóna reynt að hlaupa á gervigrasinu en nú eru fótboltaæfingar byrjaðar aftur hjá yngri iðkendum og þá þarf hún að huga að því að fá ekki fótbolta í andlitið. „Ég get ekki farið á gadda hérna á klakanum. Maður er að passa sig að renna ekki. Við vorum einmitt að hlaupa á gervigrasinu um daginn og það var ekki búið að skafa það nógu vel þannig að það var klaki á því. Maður missteig sig svolítið oft sem er mjög hættulegt upp á Ólympíuleikana og önnur mót,” segir Guðbjörg Jóna. 

„Ég hef aðallega verið að lyfta í óupphituðum skúr. Ég er ekkert búinn að vera að kasta síðan ég keppti síðast, ég hef alveg beðið með það. Ég ætlaði að fara að byrja núna þegar það opnaði allt aftur, en það er allt ennþá lokað,” segir Guðni Valur um sína æfingaaðstöðu. 

„Þetta er orðið frekar leiðinlegt. Við erum að gera okkar besta, það eru allir að gera sitt besta. En við þurfum að fá að fara inn,” segir Guðbjörg Jóna

Guðni Valur sló 31 árs gamalt Íslandsmet í kringlukasti í haust og á fimmta lengsta kast ársins í greininni. Guðbjörg Jóna er Íslandsmethafi í 100 og 200 metra hlaupi kvenna. 1. desember var á ný opnað fyrir lágmörkin inn á Ólympíuleikana næsta sumar og tíminn líður hratt.

Bæði hafa þau áhyggjur af því að dragast aftur úr keppinautum sínum þegar að því kemur að æfingar og keppni fara af stað að nýju.

„Ég persónulega held að ég sé að dragast aftur úr. Ég er komin í mjög gott þolform, það er ekki það. En ég þarf að taka þessar tækniæfingar sem hjálpa mér rosalega mikið því ég hef alltaf verið með gott þol. Það vantar ekkert mikið hjá mér. Ég þarf að ná að fara í gadda, fara í blokkir og fara yfir litlar grindur til að hjálpa mér. Að sjá myndbönd af öðrum stelpum að gera þessar æfingar og vera inni gera mann svolítið stressaða,” segir Guðbjörg Jóna.  

Guðni Valur tekur undir þetta. „Flestir eru með betri aðstöðu en við höfum til að byrja með hérna heima. Svo halda þeir áfram í sömu aðstöðu og þeir eru með og við útilokumst frá okkar aðstöðu. Þannig að þetta er erfitt en við verðum bara að vona að það komi eitthvað gott út úr þessu á endanum,” segir Guðni Valur

Kuldinn hefur einnig áhrif enda ekki gott fyrir vöðvana að æfa í svona miklum kulda. Þau reyna að klæða kuldan af sér með mismiklum árangri. „Ég klæddi mig í þrjár buxur í gær og þrjá peysur en það var ekki nóg. Svo tekur maður ekki pásur og þá eru gæðin á æfingunni farin. Það eru allir íþróttamenn frekar þreyttir á þessu ástandi. Það þarf að fara að gera eitthvað í þessu,” segir Guðbjörg Jóna. 

„Þetta er orðið frekar hættulegt að æfa, það er orðið það kalt. Það er komin ís eins og þið sjáið hérna. Þótt við náum kannski að skafa hringinn eða brautina, það þarf að labba að brautinni og þá getum við dottið á ísnum, eða eins og þegar við köstum og stígum út úr hringnum þá getum við líka dottið, eins og ég hef gert. Þetta er bara erfitt,” segir Guðni Valur

Utan þess að stunda bæði frjálsar og stefna á ÓL eru þau Guðni Valur og Guðbjörg Jóna par. Þau geta því leitað stuðnings og skilnings hvort hjá öðru. Þau stunda þó ekki sömu greinina og geta því kannski ekki mikið æft saman.

„Kannski svolítið erfitt að skokka með honum,” segir Guðbjörg Jóna

„Ég held að það sé öfugt, erfitt að skokka með henni,” segir Guðni Valur 

„Maður verður bara að líta á jákvæðu hliðarnar. Við erum heil og við getum æft. En það er mjög gott að geta talað við hvort annað því við tengjum rosalega mikið,” segir Guðbjörg Jóna

Þau viðurkenna bæði að ylja sér við tilhugsunina um Ólympíuleika, þó þau hafi ekki gengið svo langt að skoða veðurspána í Tókýó.

„Það verður 100% betra en þetta,” segir Guðni Valur