Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fjölskylda Roald Dahl biðst afsökunar á ummælum hans

Mynd með færslu
 Mynd: Rob Bogaerts - Wikipedia

Fjölskylda Roald Dahl biðst afsökunar á ummælum hans

06.12.2020 - 14:12

Höfundar

Aðstandendur breska rithöfundarins Roald Dahls hafa beðist afsökunar á orðum sem hann lét falla um gyðinga í viðtali árið 1983. Dahl er þekktastur fyrir barnabækur sínar, meðal annars Matthildi og Kalla og sælgætisgerðina.

Í viðtali við breska tímaritið New Statesman sagði Dahl, sem lést árið 1990, meðal annars að það væri eðli fólks af gyðingaættum sem leiddi til andúðar gegn því. Hugsanlega væri ástæðan „skortur á göfuglyndi við þá sem ekki eru gyðingar.“

„Það er ástæða fyrir því að andstaða við eitthvað kemur upp einhvers staðar. Jafnvel fúlmenni á borð við Hitler var ekki að níðast á þeim að tilefnislausu,“ sagði Dahl meðal annars.

Þessi ummæli Dahls hafa lengi varpað skugga á arfleið hans. Í yfirlýsingu frá The Roald Dahl Story Company sem er í eigu fjölskyldu rithöfundarins segir: „Þessi fordómafullu ummæli eru okkur óskiljanleg og eru í mikilli þversögn við þann mann sem við þekktum og þau gildi sem mynda kjarnann í sögum Roald Dahls.“ Fjölskyldan segist vonast til þess að jafnvel þegar hann hafi verið upp á sitt versta, minni rithöfundurinn á að orðum fylgir ábyrgð.

Verk Dahl hafa notið mikilla vinsælda gegnum árin og fjölmargar kvikmyndir verið gerðar byggðar á bókum hans.