Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fæðuöryggi 50 milljóna Bandaríkjamanna ógnað

epa08422965 Military with facial masks make a control to the citizens who enter the Vega Central, the main food market in Santiago, Chile, 14 May 2020.  EPA-EFE/Alberto Valdés
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Nærri 230 þúsund ný kórónuveirusmit greindust í Bandaríkjunum í gær sem er nýtt met, þriðja daginn í röð. Samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum létust ríflega tvöþúsund og fimmhundruð af völdum sjúkdómsins. Æ fleiri búa við skort og hungur í þessu einu auðugasta ríki heims.

Heilbrigðisyfirvöld vestra vöruðu við að smitum myndi fjölga eftir að milljónir Bandaríkjamanna lögðu í ferðalög fyrir Þakkargjörðarhátíðina þrátt fyrir viðvaranir.

Útlitið svart

Þeim sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús fjölgar því stöðugt, sérstaklega í fjölmennum ríkjum á borð við Kalíforníu, New York, Flórída og Texas. AFP-fréttastofan hefur eftir Joseph Vraon lækni við United Memorial sjúkrahúsið i Houston útlitið næstu sex til tólf vikur sé svart.

Þær gætu læknisfræðilega orðið versta tímabilið á síðari tímum. Varon er ómyrkur í máli þegar hann ávítar landa sína fyrir hugsunarleysi. „Fólk er hreinlega út um allt, á veitingastöðum, í verslunarmiðstöðvum og á börum. Það hlustar ekki á viðvaranir og endar loks á gjörgæslu hjá mér,“ segir Varon.

Æ fleiri glíma við hungur

Kórónuveirukreppan hefur orðið til þess að sífellt fleiri búa við hungur í Bandaríkjunum. Tölur viðskiptaráðuneytisins bandaríska sýna að um tólf af hundraði fullorðinna fá stundum eða oft ekki nóg að borða.

Könnun á vegum Brookings-stofnunarinnar í Washington-borg leiðir í ljós að 10% barna undir fimm ára aldri voru að einhverju leyti án matar í október og nóvember. Samtökin Feeding America gera ráð fyrir að fæðuöryggi 50 milljóna Bandaríkjamanna sé ógnað á þessu ári.

Undanfarna tvo áratugi hafi fæðuöryggi aukist verulega en nú þarf eitt af hverjum fjórum börnum í landinu að óttast að fá ekki nóg að borða. „Ástandið hefur aldrei verið verra í nútímanum,“ segir Lauren Bauer hagfræðingur hjá Brookings-stofnuninni.

Opinber stuðningur dugar ekki til

Eftir að skólum var lokað minnkuðu möguleikar fátækra barna á að fá fríar máltíðir auk þess sem áhlaup á matvöruverslanir urðu til þess að skortur varð á helstu nauðsynjavörum.

Þingið brást við með því að gefa heimila einstökum ríkjum að gefa út matarkort til handa skólabörnum. Sumstaðar héldu skólar áfram að færa börnum mat sem þau gátu notið heima hjá sér.

Lauren Bauer segir þó göt í þessu öryggisneti, til að mynda geti sumir foreldrar einfaldlega ekki sótt matinn. Einnig lendi börn sem ekki eru komin á skólaaldur utan öryggisnetsins.

Skortur á næringu á þeim aldri getur haft áhrif á heilbrigði þeirra það sem eftir lifir ævinnar. Auk þessa dugi opinber stuðningur oft ekki til og þá þurfi fólk að leita á náðir góðgerðarsamtaka.