Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Afhjúpandi kímnisögur frá ólíkindaskáldi

Mynd: - / JPV

Afhjúpandi kímnisögur frá ólíkindaskáldi

06.12.2020 - 10:00

Höfundar

Sagnasafnið Mæður geimfara eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur er bráðfyndið en að baki liggur stundum þung alvara, hugrenningatengsl um heimilisofbeldi, einmanaleika og útskúfun, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Sigurbjörg Þrastardóttir er ólíkindatól. Eða ætti ég að segja ólíkindaskáld? Kannski undirstrikast það einmitt með myndinni af skáldinu innan á kápunni, þar sem hún er á hvolfi. Tónninn í ljóðum hennar og sögum er um margt óvenjulegur, að ekki sé sagt annarlegur. Hún fer með lesandann af stað í einhverja ferð sem svo snýst nánast á hvolf í lokin þannig að viðkomandi brosir, lyftir brúnum eða jafnvel hváir í forundran. Þetta er skemmtileg glíma fyrir lesendur að mínu mati, hún viðheldur lestrarlönguninni, sögu eftir sögu í tilfelli þessarar bókar.

Þetta er sagnasafn, örsagnasafn. Á titilsíðunni stendur bara sögur, en þær eru allar stuttar, styttri en flestar smásögur, allt frá tveimur línum eins og í sögunni „Allt sem glóir“ upp í tvær til fjórar síður hið mesta. Góðar örsögur lúta hins vegar svipuðum lögmálum og smásagan gerir, þær leggja einhverja senu fram sem síðan er snúið á með einhverjum hætti í lokin. Löngum hafa smásögur hins vegar verið bundnar hinu raunsæja formi, að minnsta kosti að meirihluta til. Örsögur gefa einhvern veginn færi á öðru og það má sjá í þessu sagnasafni Sigurbjargar, hér má finna einhvers konar furðusögur, ævintýri, skens og súrrealisma, allt í bland, lesendur geta ekki gert ráð fyrir neinu heldur aðeins flett áfram og lesið. Og þrátt fyrir að snúningarnir komi í ljós við fyrsta lestur, þá er eiginlega enn skemmtilegra að lesa sögurnar aftur, þá fer maður að taka eftir fleiru, orðkynnginni, leiknum með tungumálið, kímilegum samsetningum orða og hugmynda. Ein sagan, „Á heilanum“, notast til að mynda við titla dægurlaga til að nefna krakka á leikvelli og ég brosti út í annað þegar ég áttaði mig á því og svo lýkur sögunni svona: „Þetta er mjög barnvænt hverfi og unglingarnir, núorðið, mestmegnis til friðs.“ Þetta byrjar eins og fasteignaauglýsing en snýst við í einu vetfangi með setningunni um unglingana. Gekk eitthvað mikið á í þessu hverfi hér áður fyrr? Eða er þetta „mestmegnis“ skrauthvörf af einhverjum toga?

Sumar sögurnar eru bráðfyndnar eins og sagan „Bónleið, vosbúð“, þar sem ráðherra nokkur er að tala við kjósendur sína úti á landi um vegabætur; það minnti jafnvel á samtöl úr sögunni Litli prinsinn með annarlegum tilsvörum við blátt áfram spurningum. En þótt sumar sagnanna séu kímilegar, þá liggur stundum þung alvara á bak við, hugrenningatengsl um heimilisofbeldi og annað ofbeldi, einmanaleika og útskúfun vakna stundum, eða þessi fyrirbrigði leika hlutverk sem fjallað er um í sögunum á allt annan hátt en í daglegu tali. Eftirtekt okkar er vakin á þeim eins og í sögunni „Handrukkarar missa líka mæður sínar“. Þar fáum við fyrst að heyra um kjarngott orðfæri handrukkarans við iðju sína og síðan hverfist sagan í sára minningu hans af fótboltaleik þar sem hann var í marki og mistókst að verja eftir hornspyrnu. Einhver íþróttavefur kvað upp þann dóm að hann hefði átt að gera það og það situr í veslings handrukkaranum. Á móður hans er ekki minnst, enda felur íronían í sér að sumir ofbeldismenn vorkenni sjálfum sér þrátt fyrir gjörðir sínar. Þetta er bæði fyndin saga og alvarleg og geri aðrir betur að blanda þessum þáttum saman svo að upp gangi.

Það eru fleiri sögur um ofbeldismenn, eins og til að mynda „Kýldi mæðgur á aðfangadag“ sem er tilvitnun í fyrirsögn í fjölmiðli; raunverulegt atvik, en sagan snýr því upp í absúrdíska lýsingu á manneskjunni sem kýldi mæðgurnar, eðlisfræðilega, bókmenntalega og það að þessi sama manneskja á „kött í hvítum sokkum“. Einhvern veginn verður ofbeldið óhugnanlegra fyrir vikið. Ofbeldisþemað kemur einnig fram í sögunum „Hit me baby, one more time“ og ekki síst í þeirri sem heitir „Landslag undir konunni“ sem hefst á fræðilegri lýsingu á málverki eftir Picasso og lýkur með örfáum orðum um stríð og afleiðingar þeirra fyrir konur. Sannarlega ekki kímin saga, en beisk íronían hittir algjörlega í mark.

Annað þema, ef þema skyldi kalla, snýst um bernskuna, áföll hennar og ríka tilveru í lífi okkar fullorðinna. Það eru leikvellir hér og þar, vettvangur barna, og sjónarhorn þeirra koma stundum fram, hvort sem það er úr hrollvekjandi minningu líkt og í sögunni „1978“ eða „Á reiðum höndum“ sem snýst óvænt úr því að vera hjartnæm saga um liðveislu dóttur við erlenda stúlku í skólanum, yfir í að móðirin áttar sig á því að dóttirin er fórnarlamb eineltis. Við getum ekki treyst því sem sögurnar byrja á, það er sjaldnast einhver rökrétt niðurstaða, þótt það komi fyrir eins og í sögunni „Lukkan er alltaf skömmtuð“. Þar segir frá konu sem tekur saman við ónytjung og fentanýl neytanda. Hún les um aftökur fanga í Bandaríkjunum með fentanýli og finnst „blaðagreinin barnalega skrifuð og örlögum fólks takmörkuð virðing sýnd“ eins og sögukonan segir, en sögunni lýkur með þeim orðum að „þessar tæknilegu leiðbeiningar urðu mér sífellt hugstæðari eftir því sem það dróst á langinn að hann fengi sér vinnu og borðstofan mín fór meira að líkjast róluvelli.“

Það kann að vera ofsögum sagt að það séu beinlínis þemu í gegnum bókina, en sumt kemur oftar en einu sinni fyrir, sjálfsvíg til dæmis, og dauðinn í ýmsum myndum, hvort sem það er frásögn af því að unglingar hafi orðið úti eða hugleiðingar um ferðalag til Auschwitz. Í þessum og fleiri frásögnum af alvarlegum hlutum er algjörlega íronísk sýn á tilveruna og frásagnarháttur sem dregur fram allt önnur og súrrealísk sjónarhorn á svo margt sem við skynjum. Samtímis bregður oft fyrir húmor sem þjónar þessari íroníu og feitletrar svo margt sem við sjáum, en sjáum þó ekki, eins og ofbeldi og áföll bernskunnar. Þannig má finna í þessum sögum mikinn mannskilning sem fram er settur á svo óvenjulegan hátt, að okkur finnst kannski við fyrstu sýn að það sé verið að tala um alvarleg mál með léttvægum hætti, en sjáum svo, ekki síst við endurtekinn lestur, að alvaran ristir með þessu miklum mun dýpra og allt í einu verður kímnisaga á yfirborðinu afhjúpandi lesning, saga sem tengir okkur við tilveruna eins og hún er, með því að benda ekki á hið augljósa heldur varpa því yfir í víddir sem engum nema skáldinu hefur dottið í hug, og þannig heldur hún augum okkar opnum, nánast með fingrunum. Það getur verið sárt að sjá, en það er nauðsynlegt og með þessu sagnasafni hefur það sýnt sig enn á ný, að skáldskapurinn er leiðin til að sjá tilveruna þannig að við skiljum hana að einhverju marki. Meira er ekki hægt að biðja um.