Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ævintýrið hófst þegar Magnús Scheving þurfti jakkaföt

Mynd: Máni Svavarsson / Aðsend

Ævintýrið hófst þegar Magnús Scheving þurfti jakkaföt

06.12.2020 - 09:00

Höfundar

Elly Vilhjálms, móðir Mána Svavarssonar söngvara, gerði mikið grín að syninum þegar hann gekk í gegnum glimmer-sítt að aftan-tímabilið með hljómsveitinni Cosa Nostra. Í dag hefur hann breytt um stíl og semur lög fyrir barnaefni. Hann var tilnefndur til Eddu-verðlauna fyrir tónlistina í Latabæ en það verkefni hófst þegar hann var starfsmaður í Sævari Karli í Kringlunni.

Tónlist var alltumlykjandi á æskuheimili Mána Svavarssonar sem er sonur Ellýjar Vilhjálms söngkonu og Svavars Gests tónlistar- og útvarpsmanns. Fjölskyldan var búsett í Fossvogi og tónarnir ómuðu heilu og hálfu dagana og höfðu mikil áhrif á hann. „Pabbi var alltaf að undirbúa útvarpsþætti, finna lög og flytjendur og útgáfuár. Hann lagði mikið í þættina sína og maður heyrði alls konar tónlist daginn út og inn, allt frá djassi yfir í popptónlist,“ rifjar Máni upp í samtali við Mannlega þáttinn á Rás 1.

Ekki kominn með bílpróf og mátti ekki vera inni þar sem þau spiluðu

Það er kannski ekki að undra að drengur með þetta uppeldi hafi sjálfur lagt tónlistina fyrir sig. Þegar Máni var rétt um fermingaraldur var honum boðin þátttaka í D.R.O.N.- Danshljómsveit Reykjavíkur og nágrennis. Hún vann sér það helst til frægðar að bera sigur úr býtum í Músíktilraunum árið 1982. „Þetta var algjört ævintýri og við spiluðum mikið í framhaldinu,“ segir hann. „Ég var sjálfur ekki kominn með bílpróf og mátti ekki vera inni á sumum stöðunum sem við spiluðum á.“

Brúsi af hárspreyi og sítt að aftan

Eftir að D.R.O.N. ævintýrinu lauk heillaðist Máni af trommuheilum og hljóðgervlum sem lengi áttu hug hans allan. Hljómsveitin Cosa Nostra varð til í Verzlunarskólanum og var samkvæmt Svavari sannkölluð níundaáratugarhljómsveit. Öllu var til tjaldað til að tolla í tísku þess tíma, bæði hvað varðar hljóm og útlit. „Þetta glimmertímabil þegar maður var með brúsa af hárspreyi í hárinu og sítt að aftan,“ segir Máni. „Ég var reyndar ekki bara með sítt að aftan heldur mjög sítt hár, hvítt og svart.“

Mamma gat ekki hætt að hlæja

Hvíti liturinn kom þó ekki nógu vel út í heimalitunartilraunum Mána sem segir að hárið hans hafi reynst svart og hlandgult. Móðir hans, Elly Vilhjálms, skellihló þegar hún sá útganginn á syninum. „Hún gat ekki hætt að hlæja.“

Mána sjálfum stökk hins vegar ekki bros á vör enda hefði það verið stílbrot. „Þú þurftir að vera ofsalega flottur og grafalvarlegur allan tímann. Og ég fór ekki út öðruvísi í eitt-tvö ár en að vera málaður í kringum augun.“ Tvítugur stofnaði hann svo hljómsveitina Pís of keik fyrir kvikmyndina Veggfóður ásamt Júlíusi Kemp kvikmyndagerðarmanni. Þeir fengu Ingibjörgu Stefánsdóttur til liðs við sig til að syngja.

Fann sína hillu í auglýsingjastefjum og sjónvarpsþáttatónlist

Það hvarflaði að honum að hætta í tónlist og fara í nám því foreldrarnir voru duglegir að minna hann á að það væri enginn hægðarleikur að ætla sér að lifa á tónlistinni. „Þau höfðu séð marga fara illa út úr helgarspileríinu.“ 

Foreldrarnir sáu fyrir sér að það væri ekki hægt að lifa á því að vera tónlistarmaður nema að spila á böllum hverja helgi og vildu ekki að sonur þeirra sæi sig knúinn til þess. Máni sneri sér að öðru um hríð en fann svo sína hillu í tónlistinni með því að semja auglýsingastef og sjónvarpsþáttatónlist. Á því lifði hann í nokkur ár ásamt því að starfa í Sævari Karli í Kringlunni við að selja herramönnum jakkaföt.

Hélt að Magnús Scheving væri búinn að missa það

Hann stóð vaktina í fatabúðinni þegar Magnús Scheving kíkti við einn daginn. Hann kannaðist við Mána og hafði hlustað á Pís of keik og ákvað að spyrja hvort hann gæti samið lag fyrir eróbikkrútínu. Máni samþykkti það um hæl og samdi tónlist fyrir leikfimisæfingarnar þar til hinn síðarnefndi bar upp hugmynd sína um Latabæ nokkru síðar. Magnús var þá búinn að skrifa bókina og vildi gera tónlist sem henni fylgdi ásamt leikfimisæfingum. Mána fannst hugmyndin galin. „Ég hef sagt það áður að ég hélt hann væri búinn að missa það því það gekk svo vel í eróbikkinu. Ég var ekki kominn með börn sjálfur og skildi ekkert í þessu.“

„Þetta var yndislegur tími“

En Magnús var harðákveðinn og sannfæringakrafturinn mikill svo Máni lét til leiðast og sá ekki eftir því. Ári síðar var Latabær orðinn að söngleik í Loftkastalanum og svo var hann nokkrum árum síðar settur upp í Þjóðleikhúsinu. Sjónvarpsþátturinn Lazy Town með Magnúsi sjálfum og Stefáni Karli í aðalhlutverkum varð geysivinsæll um allan heim. Máni sá um að semja tónlist fyrir þættina í mörg ár og var meðal annars tilnefndur til Emmy-verðlauna í flokki tón­list­ar­stjórn­un­ar og tón­verka fyr­ir sjón­varps­efni sem sýnt er að degi til. „Þetta var yndislegur tími,“ segir Máni um ævintýrið sem hélt lengi áfram. Lag hans Bing Bang sem Solla Stirða, sem leikin er af Julianna Rose Mauriello, náði til dæmis miklum hæðum og fjórða sæti á breska vinsældalistanum.

Finnst í dag augljóst hvernig fór

Margt af því sem drifið hefur á daga hans hefði hann aldrei getað séð fyrir, en þegar hann lítur yfir farinn veg skilur hann hvernig lífið leiddi hann á þær óvæntu brautir sem hann hefur fetað. „Ég segi oft við krakkana mína, sem eru á þeim aldri að þau eru að fara út í lífið og eru hugsanlega stressuð um að fá ekki vinnu við það sem þau eru að læra, að þegar maður horfir fram á við lítur þetta oft óútreiknanlega út. En þegar maður lítur til baka er þetta nokkurn veginn bein lína með smá beygjum en einhvern veginn finnst manni augljóst hvernig fór.“

Hlustendahópurinn yngist

Í dag semur hann tónlist í bílskúrnum sínum fyrir breskt framleiðslufyrirtæki sem setur upp barnaleiksýningar upp úr bresku sjónvarpsefni. Hann hefur gert tónlist fyrir Peppa Pig, sem íslensk börn þekkja sem Gurru Grís, og Teletubbies eða Stubbana. „Mér finnst ég vera að færa mig alltaf neðar og neðar í aldri. Ég verð að lokum kominn í tónlist fyrir óléttar konur,“ segir hann glettinn.

Rætt var við Mána Svavarsson í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Erfiðasta ákvörðun lífsins að láta barnið frá sér

Innlent

Latibær tilnefndur til alþjóðlegu Emmys

„Latibær mun lifa lengi“