Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

42% fleiri barnafjölskyldur þurfa aðstoð

06.12.2020 - 19:51
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Ríflega fjörutíu prósenta aukning er á umsóknum barnafjölskyldna um aðstoð til Hjálparstarfs kirkjunnar vegna fátæktar. Margir nýir hafa bæst í þennan hóp frá því kórónuveirufaraldurinn braust út, segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Margir í þessum hópi hafi misst vinnuna í faraldrinum. Þá sé dýrara að halda heimili nú en áður.

Starfsfólk Hjálparstarfsins forgangsraðar umsóknum sem berast um aðstoð. Tugir umsókna á dag berast rafrænt. Vilborg segir að hópurinn sem nú þurfi aðstoð sé öðru vísi en eftir bankahrunið. Þá hafi stærsti hlutinn verið einstaklingar en núna eru flestar umsóknirnar frá barnafjölskyldum. 

„Það hefur verið aukning hjá okkur. Frá fyrstu bylgju faraldursins hefur orðið 42% aukning hjá þeim sem leita aðstoðar hjá okkur. Það hefur mjög mikið af börnum komið eða fjölskyldur þeirra,“ segir Vilborg.

Er þetta fólk sem  hefur misst vinnuna í faraldrinum?

„Bæði og. Þetta er náttúrulega fólk sem  hefur misst vinnuna og hefur þurft að bíða eftir að fá úrlausn sinna mála hjá Vinnumálastofnun. En svo eru þetta líka þeim sem hafa búið við fátækt til margra ára, eins og fólk á örorkubótum og fjölskyldur. Það kostar mikið að vera heima í faraldrinum. Það kostar að hafa kósí. Matur er orðinn dýrari. Það kostar að kaupa púsluspil, leigja auka mynd, baka kökuna og allt sem er verið að hvetja okkur til að gera, vera heima,“ segir Vilborg.

Þið eruð ekki bara að hjálpa fólki við matarinnkaup?

„Nei, en fyrst og fremst eru það þessi inneignakort sem við erum aðstoða fólk með. En núna fyrir jólin eru það inneignakortin, það eru jólagjafir, jólaföt, eitthvað sem við eigum sem við getum aðstoðað fólk með. En árið um kring eru það fyrst og fremst inneignakortin og svo stuðningur við börn og barnafjölskyldur. Það geta verið tómstundir og aðstoð við að borga skólagjöld,“ segir Vilborg.