Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Yfir 40 sakborningar í fordæmalausu peningaþvættismáli

05.12.2020 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á fimmta tug eru nú með réttarstöðu sakbornings í fordæmalausri rannsókn Héraðssaksóknara á umfangsmiklu peningaþvætti. Böndin berast að fíkniefnasmyglurum í Suður-Ameríku og fjárhæðin teygir sig upp undir milljarð króna.

Fréttastofa sagði frá því í september í fyrra að þrennt sæti í gæsluvarðhaldi og um tuttugu hefðu verið yfirheyrðir eftir aðgerðir sem Héraðssaksóknari réðst í vegna rannsóknar á mjög umfangsmiklu peningaþvættismáli.

Fólkið var velflest ungt, karlar og konur á milli tvítugs og þrítugs, og samkvæmt upplýsingum fréttastofu fór það ítrekað í bankaútibú, sumt í tugi skipta, og skipti þar íslenskum krónum í evrur, yfirleitt einni milljón króna í einu. Fyrir hverja ferð er talið að fólkið hafi fengið um tíu þúsund krónur í sinn hlut.

Nú rúmu ári síðar er rannsóknin enn í gangi og hefur undið verulega upp á sig, samkvæmt heimildum fréttastofu. Sakborningarnir í málinu eru orðnir á fimmta tug og rannsóknin hefur ekki síst beinst að því að átta sig á tengingunni á milli alls þessa fólks. Upphæðin sem talin er hafa verið þvættuð með þessum hætti er orðin um 800 milljónir króna.

Ein ákæra hefur verið gefin út sem tengist málinu. Í henni er karli og konu gefið að sök að hafa þvættað 27 milljónir króna með þessum hætti.

Óvíst er hvort tekst að hafa hendur í hári þeirra sem gerðu allt þetta unga fólk út, en heimildir fréttastofu herma hins vegar að þar hafi böndin borist að íslenskum fíkniefnasmyglurum með starfsemi í Suður-Ameríku og Evrópu.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV