Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Þetta snýst ekki bara um okkar hagsmuni“

Mynd: RÚV / RÚV
Uppgreiðsluþóknun sem Íbúðalánasjóður innheimti var dæmd ólögmæt af Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Erla Stefánsdóttir, sem stefndi sjóðnum ásamt eiginmanni sínum, segist í samtali við fréttastofu mjög ánægð með niðurstöðuna.

Samkvæmt dómnum ber sjóðnum nú að endurgreiða hátt á annan tug milljarða til þúsunda lántakenda og ljóst að höggið er þungt fyrir sjóðinn að mati lögmanns þeirra hjóna.

Kom þessi niðurstaða þér á óvart?

„Já, hún kom mér á óvart. Það hafa fallið dómar í héraði í sambærilegum málum og úrskurðar um þetta í nefndum. Niðurstaðan hefur alltaf verið Íbúðalánasjóði í vil. Við höfðum samt trú á okkar vegferð og okkar lögmanni í þessu máli og treystum því að hann væri rétti maðurinn til að gera þetta fyrir okkur og hjálpa okkur með þetta þannig að við vorum líka bjartsýn.“

Þið hafið ákveðið að fara í þessa vegferð þrátt fyrir að líkurnar hafi verið á móti ykkur?

„Við tókum ákvörðun um um að fara í þessa vegferð, við ígrunduðum það vel. Við veltum fyrir okkur hvort við værum tilbúin til þess, við vorum náttúrulega með alveg svakalega háa vexti á þessu láni og við vorum ekki tilbúin til þess að greiða þá í 30 ár í viðbót eins og lánstíminn sem var eftir.“

Erla segir þau hjónin hafa reiknað út ávinning þess að skipta um vexti og stytt lánstímann til að koma á móti tapinu ef svo færi að þau töpuðu málinu fyrir héraðsdómi. Þau hafi ekki verið tilbúin til að borga lánið með þessum formerkjum og ekki heldur til „að horfa í spegilinn og ekki fara í þessa vegferð.“

Ekki að þessu bara fyrir sig

Aðspurð um hvort hún telji að framhald verði á málinu segist Erla gera ráð fyrir því að því sé ekki lokið. Hefði dómur fallið á annan veg voru þau hjónin reiðubúin að reka það fyrir æðra dómstigi. „Þegar maður fer í svona verður maður að hugsa það alla leið og við gerðum það,“ segir hún.

„Maður verður að hafa það í huga þegar maður tekur svona ákvörðun að maður er ekki bara að þessu fyrir sjálfan sig. Þetta snýst ekki bara um okkar hagsmuni.“

Þórir Skarphéðinsson, lögmaður hjónanna sagði í gær að um tímamótadóm væri að ræða og lítur svo á að dómurinn hafi ótvírætt fordæmisgildi. Árið 2018 höfðu 6.400 lánþegar greitt uppgreiðslugjaldið margir bæst við síðan þá. Um 14 þúsund lánþegar tóku lán hjá Íbúðalánasjóði þar sem lántökugjalds var krafist.

Mynd með færslu
 Mynd: Eddi - RÚV
Þórir Skarphéðinsson lögmaður hjónanna.
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV