Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sprungur myndast í hallarmúrnum í The Crown

Mynd: - / Netflix

Sprungur myndast í hallarmúrnum í The Crown

05.12.2020 - 09:00

Höfundar

„Fjórða þáttaröðin um bresku krúnuna gefur til kynna að hnignun konungsveldisins sé ekki aðeins djúpur öldudalur heldur séu endalok þess óumflýjanleg,“ segir Katrín Guðmundsdóttir um nýjustu þáttaröð The Crown.

Katrín Guðmundsdóttir skrifar:

Stór og stæðilegur krónhjörtur ráfar frá hjörðinni sinni í víðáttu skosku hálandanna. Greinilega forystudýrið. Tveir menn fylgjast með honum úr launsátri. Annar þeirra, heimamaður, leiðbeinir hinum, erlendum kaupsýslumanni, við að miða byssu á bráðina. Í þá mund sem hann hleypir af verður hjörturinn var við mennina. Skotið særir hann og dýrið hleypur örvinglað í burtu. Þegar útlendingurinn spyr hvort þeir eigi ekki að elta það uppi neitar heimamaðurinn og útskýrir að hjörturinn sé nú kominn út fyrir lóðarmörk þeirra.

Nokkru síðar verður hjörturinn á vegi hertogans af Edinborg og tilvonandi tengdadóttur hans. Díana kemur auga á dýrið og spyr hvort þau eigi ekki að reyna að komast nær því. Filippus neitar og segir að áhættan sé of mikil, þau eigi aldrei eftir að fá þetta tækifæri aftur. Hann miðar á bráðina og spyr úr hvaða átt vindurinn komi. Díana segir að hann komi frá vinstri, hún sjái það á skýjunum. Filippus er ekki sannfærður og segir að þau þyrlist bara í allar áttir. Hann skýtur af og fellir hjörtinn. Vindurinn kom frá vinstri.

Framantaldar frásagnir eru kannski ekki svo eftirminnilegar senur úr fjórðu og nýjustu þáttaröðinni um bresku krúnuna, sem notið hefur mikilla vinsælda upp á síðkastið, ekki síst vegna vafasamrar innsýnar í hjónaband þeirra Karls Bretaprins og Díönu. Senurnar eru engu að síður ákveðnar lykilsenur í þeim skilningi sem leggja mætti í seríuna handan svoleiðis söguburðar og almennra hugleiðinga um heimildargildi þáttanna. Með skotfimum symbólisma og sögulegu samhengi virðist hún nefnilega ávarpa hnignun og möguleg endalok breska konungsveldisins.

Breska konungsfjölskyldan er í rauninni lítið annað en marglaga tákn. Hún er tákn fyrir sameiningu og samstöðu þeirra ríkja sem heyra undir drottninguna eða hafa gert það í gegnum tíðina. Hún er líka tákn fyrir sögu, stöðugleika, stéttaskiptingu og sjálfsmyndir hundruð milljóna manna um víða veröld. Umfram allt er hún þó tákn fyrir guðlegt vald en það er jafnframt undirstaða blóðsins bláa. Handhafi krúnunnar er jú auðvitað fulltrúi Guðs á Jörðinni. Ef hátignirnar eru svo aftur á móti strípaðar af öllum þessum táknum stendur eftir hópur af ósköp venjulegu fólki sem hefur einangrað sig fullkomlega frá raunveruleikanum. Það er því kannski ekkert svo langsótt að gera ráð fyrir því að sjónvarpsþættir sem fjalla um drottninguna og afkomendur hennar séu drekkhlaðnir táknum um stöðu konungsveldisins, hvort sem það er innan þess tímaramma sem þættirnir fjalla um eða í samtímanum.

Lítum nú aftur á misfarir krónhjartarins og skoðum hann sem tákn fyrir bresku krúnuna. Sjáum hvernig hún heldur hæfilegri fjarlægð við þegna sína, tignarleg en þó vör um sig í ört stækkandi heimi, þar til hún er hæfð af fulltrúum hnattvæðingar og alþjóðaviðskipta. Fylgjumst með henni liðast sundur í ríkidæmi sínu þar til hún er loks yfirbuguð af Díönu, prinsessu fólksins, sem veit hvað nútímavædd alþýðan vill og veitir henni það. Eftir stendur uppstoppaður og áhrifalaus sýningargripur hátt uppi á vegg innan um aðrar sambærilegar menningarminjar í kastala fortíðarinnar.

Þessi dramatíska senutúlkun afhjúpar ekki aðeins mögulega afstöðu þáttargerðarmanna í garð konungsfjölskyldunnar sem barn síns tíma heldur er frásögnin einnig smækkuð útfærsla af atburðarás seríunnar, sem samræmist jafnframt gegnumgangandi þema þáttanna í heild sinni. Það er múrinn milli þess almenna og konunglega, mörkin milli persónunnar og krúnunnar og takmörk manneskjunnar gagnvart hinu guðlega.

Fram til þessa höfum við fylgst með viðleitni Elísabetar drottningar til að viðhalda þessari nauðsynlegu fjarlægð á tímum sem krefjast nálægðar sem aldrei fyrr. Við höfum skyggnst á bak við tjöldin og gert okkur í hugarlund þær fórnir sem hún hefur þurft að færa til að vera metin til jafns við Guð ásamt því að ímynda okkur vandræðaganginn sem fylgir því að þvinga fólk í fjölskyldunni til að afsala sér réttinum að frjálsu persónulífi. Sprungur hafa myndast í hallarmúrnum og heimilisfólk brotnað saman innan hans en hingað til hefur handhafa krúnunnar þó tekist að finna einhvers konar jafnvægi í allri þessari togstreitu. Þó án þess vita það fyrir víst hvort afkoma krúnunnar sé háð því að hækka múrinn eða hreinlega fjarlægja hann.

Í þessari þáttaröð sjáum við múrinn hins vegar byrja að molna niður og almenning gægjast inn fyrir hann. Aðdragandann má vissulega rekja aftur til fyrri þáttaraða en eins og misfarir krónhjartarins hér að framan sýnir fram á gefa þættirnir í skyn að högg nýfrjálshyggjunnar sem Margrét Thatcher boðaði og aðgengileiki Díönu prinsessu hafi kannski verið einum of þung fyrir hann að halda. Báðar eru fulltrúar nútímans og einstaklingshyggju en á meðan Thatcher gerir atlögu að krúnunni utan frá með því að ögra bæði stöðugleikanum og stéttaþjóðfélaginu sem krúnan stendur fyrir kemur áhlaup Díönu innan frá. Mögulega sem afurð sjálfbjargarviðleitni drottningarinnar. Örvæntingarfull tilraun fjölskyldunnar til hreinsa blóð sitt af mannlegum hvötum og tilfinningum krónprinsins verður þannig að afdrifaríkum mistökum sem grafa þvert á móti undan guðdómleika hennar hátignar andspænis alþýðunni.

Í aldanna rás hefur afkoma bresku krúnunnar verið háð heilagri fullkomnun. Eftir því sem okkur fleytir fram í nútímanum áttum við okkur hins vegar betur og betur á því að hún er ekki til. Allavega ekki hérna á jörðinni og alls ekki í þeirri mynd sem forfeður okkar töldu að hún birtist í. Samhliða hefur einstaklingshyggjan kennt okkur að finna fegurðina í fjölbreytileikanum. Gagnstætt heilagleikanum mætti segja að hún standi fyrir eins konar fullkomna ófullkomnun. Þess vegna finnst okkur ekki réttlætanlegt að hafna einstaklingum með líkamleg og andleg frávik í dag, eins og þættirnir sýna konungsfjölskylduna gera trekk í trekk. Staðreyndin er sú að í dag myndi almenningur snúast gegn þeim akkúrat fyrir það.

Fjórða þáttaröðin um bresku krúnuna gefur til kynna að hnignun konungsveldisins sé ekki aðeins djúpur öldudalur heldur séu endalok þess óumflýjanleg. Það virðist ekki skipta neinu máli hvort leitað sé á náðir fortíðar eða framtíðar, fjarlægðar eða nálægðar, nú eða guðdómleika eða einstaklingshyggju. Ekkert af þessu virðist ganga upp þar sem fyrirkomulagið er tímaskekkja. En það er svo sannarlega hægt að velta sér upp úr tilhugalífi og misbrestum fjölskyldumeðlima, því þau eru nefnilega þrátt fyrir allar táknmyndir og titlaprjál bara ósköp venjulegt fólk.