Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rifu niður málmsúluna og settu upp risakross í staðinn

05.12.2020 - 10:15
Mynd með færslu
 Mynd: San Louis Obispo - Dlivetv/skjáskot
Nokkrir menn sem virðast aðhyllast kristin trúarbrögð, samsæriskenningar og kynþáttahatur, fjarlægðu á fimmtudagsnótt, málmsúluna dularfullu sem fannst á toppi Fururfjalls í Kaliforníu. Mennirnir birtu myndband af sér á Netinu þar sem þeir sjást taka súluna burt og setja þar heimagerðan kross í staðinn á meðan þeir drekka orkudrykki og viðhafa hatursorðræðu.Yfirvöld segjast vera í uppnámi yfir skemmdarverkinu.

Dularfullar málmsúlur vekja athygli

Undanfarnar vikur hafa fregnir borist af dularfullum málmsúlum í Bandaríkjunum og Rúmeníu. Það voru eftirlitsmenn í þyrlu sem fundu fyrstu súluna í miðri eyðimörkinni í Utah fylki, en hún var svo fjarlægð af hópi manna í skjóli myrkurs, samkvæmt vitni sem ræddi við fjölmiðla vestanhafs. Fregnir af súlunni í Rúmeníu eru heldur óljósari, en Kaliforníusúlan fannst þegar gönguhópur gekk fram á hana á fjallstoppi í vikunni. En sú súla er nú, samkvæmt frétt Guardian, í höndum kristinna, ungra manna. 

Mennirnir keyrðu í um fimm klukkustundir að fjallinu, sem er úr alfaraleið í Kaliforníu, rétt við bæinn Atascadero, til að fjarlægja málmsúluna. Þeir streymdu myndbandi af sér á samfélagsmiðlum þar sem þeir keyrðu heillangt, frá sunnanverðri Kaliforníu, í þeim tilgangi að rífa súluna niður. Í bílum tilkynna þeir að tilgangur skemmdarverksins sé að segja „geimverum að þær séu ekki velkomnar hér”.

Mennirnir gengu loks upp á fjallið þar til þeir fundu súluna á toppnum. Þeir kyrjuðu um Jesú á meðan þeir rifu hana niður. 

„Christ is king”

Mennirnir settu svo heimasmíðaðan kross þar sem súlan hafði verið, drógu hana niður fjallshlíðina og komu henni fyrir í bílnum. 

Mynd með færslu
 Mynd: AFP
Súlan á fjallstoppi Pine Mountain í Kaliforníu á meðan allt lék í lyndi

Orkudrykkir og hatursorðræða

En þar með er ekki öll sagan sögð. Í frétt San Luis Obispo Tribune er greint ítarlega frá innihaldi myndbandanna sem mennirnir birtu (þau hafa nú verið fjarlægð). Þar heyrast þeir viðhafa ýmiss miðurskemmtileg ummæli, á sama tíma og þeir hella í sig óhóflegu magni af Monster-orkudrykkjum. Samtal þeirra má flokka sem hatursorðræðu, bæði gagnvart samkynhneigðum og fólki af öðrum kynþáttum en hvítum. Þeir spjalla líka um uppruna súlunnar á leið sinni í bílnum og tala ýmist um hana sem „geimverusúlu” eða „heiðið mannvirki”. 

„Við ætlum að keyra 500 mílur til að stela þessari fokking súlu,” sagði einn. „Það sýnir hversu heitt við elskum Jesú Krist,” segir annar. Einhver minnist á að þeir séu að fylgja beinum skipunum QAnon og Donald Trump. 

„America first”

Þegar þeir voru komnir á leiðarenda settu þeir á sig nætursjónauka og hófu göngu upp fjallshlíðina. „Þetta er að gerast, strákar,” heyrist einn segja, rétt áður en þeir byrja að kyrja „Kristur er konungur.”

Þetta er það sem kemur fram í fyrra myndbandinu, í stuttu máli. En í því seinna, sem hefur einnig verið fjarlægt, sjást mennirnir draga súluna niður fjallið og segja á meðan í sífellu:  „Ameríka er númer eitt” og segjast vera hermenn (e. military veterans). 

Skemmdarverk á erfiðum tímum

Yfirvöld í Atascadero lýsa yfir vanþóknun sinni á gjörningnum í fréttatilkynningu sem þau sendu frá sér í gær. Þau segja þetta ekkert annað en skemmdarverk og að allir séu í uppnámi yfir því að mennirnir hafi haft það í sér að keyra klukkutímum saman í þeim eina tilgangi að rífa súluna þeirra burt. Heather Moreno, bæjarstjóri Atascadero, lýsir yfir vanþóknun sinni á gjörningnum í fréttatilkynningu.

„Súlan var eitthvað einstakt og skemmtilegt á þessum annars erfiðu tímum.”

Lögreglan hefur hvorki til rannsóknar hvernig súlan komst á fjallið til að byrja með, né hverjir það voru sem voru þarna að verki í skjóli nætur. Nú er biðlað til almennings um upplýsingar. 

Mynd með færslu
 Mynd: San Louis Obispo - Dlivetv/skjáskot
Skjáskot af myndbandinu sem mennirnir birtu. Það hefur nú verið fjarlægt.
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV