Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Minkamálið hluti af stærra vandamáli

05.12.2020 - 09:00
Mynd: iStock / Pixabay
Förgun minka í Danmörku vegna hugsanlegrar stökkbreytingar kórónuveirunnar hefur sett umræðu um loðdýrarækt á kortið á ný. Atburðarásin tengist enn stærra vandamáli sem kom kórónuveirunni af stað til að byrja með, það sem snertir heilu vistkerfin og samband manns og náttúru.

Stærsta hitamálið í Danmörku undanfarinn mánuð eða svo hefur án efa verið stóra minkamálið eins og einhverjir hafa kallað það. Milljónum minka þar í landi hefur verið lógað eftir tilskipun frá stjórnvöldum um að fella ætti allan minkastofn landsins. Ástæðan var kórónuveirusmit í minkum eða möguleg smit. Talið var að það gæti skapað mikla hættu ef nýtt tilbrigði veirunnar í dýrunum myndi gera bóluefni, sem er væntanlegt, gagnslaust. Órannsakað væri hvort afbrigðið þyldi bóluefnið. Ákvörðun danskra stjórnvalda vakti úlfúð hjá mörgum minkabændum eins og gefur að skilja og hafa þeir streist á móti og haldið fjölmenn mótmæli. Síðar kom í ljós að lagaheimild hafi skort til að ráðast í aðgerðirnar og stjórnmálamenn bentu hver á annan.

Þetta er stórmál í ljósi þess að Danir eru með eina umfangsmestu minkarækt í heimi og ef aðeins er litið Evrópu er ræktunin langmest í Danmörku. Stærsti hluti ræktunarinnar fer fram á norðurhluta Jótlands þar sem smit kom fyrst upp en það greindist fljótt á öðrum svæðum. Í yfirlýsingu frá Matvælastofnun Danmerkur stóð að kórónuveirusmitin hefðu dreifst hratt á milli minkabúa og því hafi þurft að hafa hraðar hendur. Þetta er bæði samfélagslegur og pólitískur harmleikur. Til þess að bæta gráu ofan á svart bárust fréttir af minkahræjum sem hafði verið fargað. Á einum stað á Vestur-Jótlandi höfðu hræin verið grafin of grunnt í jörðu og komu upp á yfirborðið. Það kann líka að hafa verið gert af fljótfærni og áhyggjur af umhverfisáhrifum af urðuninni vöknuðu einnig og umhverfismat á eftir að varpa ljósi á málið.

En þetta er ekki bara harmleikur vegna minkadauða heldur er hefur þetta orðið eldsmatur í pólitískum deilum. Spurningin sem hefur eitrað andrúmsloftið í dönskum stjórnmálum er: Hvenær vissi ríkisstjórnin að enginn lagalegur grundvöllur væri fyrir tilskipuninni um niðurskurðinn og hvar hefði verið hægt að vanda betur til verka til þess að lágmarka skaðann?

Tilkynningar byrja í apríl

Þegar upp koma tilfelli af nýjum sjúkdómum í dýrum senda þjóðir frá sér tilkynningu til Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar, OIE. Fyrsta tilkynningin um kórónuveirusmit í minkum barst frá í Hollandi í apríl þegar fyrsta bylgja kórónuveirunnar var í hámarki. Síðan þá hafa tilkynningar borist frá sex öðrum löndum, fimm í Evrópu og einnig frá Bandaríkjunum. Ekki er þó útilokað að smit leynist víðar. Sigríður Gísladóttir, dýralæknir loðdýrasjúkdóma hjá Matvælastofnun, segir að áhyggjurnar í upphafi hafi snúið að virkni bóluefnisins á stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar.

„Þetta greinist í Danmörku í júní í minkabúum. Danir eru með held ég önnur stærsta „minkaþjóðin“. Þau eru með yfir 15 milljónir minka um land allt og 1000 bú. Það eru núna í byrjun nóvember meira en 200 bú með staðfest smit. Svo gerist það að það fara að koma upp ný afbrigði af veirunni og 7 afbrigði greinast í DK. Þessi afbrigði smitast í fólk og svo kemur 4. nóvember tilkynning um að það hafi greinst ákveðin stökkbreyting á 5 búum sem væri svolítið frábrugðin veiruafbrigðum því hún væri þess eðlis að hún yrði á mótefnahlutanum á veirunni þannig möguleg virka ekki bóluefni. En það voru gerðar rannsóknir á mótefnum úr smituðu fólki sem hafði gengið í gegnum sýkingu og niðurstaðan væri að mótefnið virkaði ekki á þetta veiruafbrigði.“

Lóga skyldi yfir 15 milljón minkum

Þetta varð til þess að dönsk yfirvöld fyrirskipuðu niðurskurð. Mette Frederiksen, forsætisráðherra, tilkynnti í byrjun nóvember að öllum minkum í landinu, um fimmtán milljónum talsins, skyldi lógað því veiran hefði stökkbreyst og gæti borist í menn. Afleiðingarnar gætu orðið þær að bóluefni virkaði ekki við COVID-19. „Og það er eignlega neyðarástand í DK. Við þekkjum sambærilegt neyðarástand til dæmis þegar kemur upp gin- og klaufaveiki. Hraðinn á aðgerðum er þannig að allir eru kallaðir til og þá geta  orðið mistök þótt erfitt sé að segja hverjum er um að kenna,“ segir Sigríður.

Það er óvíst hvort niðurstaðan um að skera minkastofninn í Danmörku eins og hann leggur sig hafi verið byggður á fullbúnum gögnum. Ákvörðunin byggðist á áhættumati vísindamanna og Matvælastofnunar Danmerkur. 

Framkvæmdin hefur einnig verið gagnrýnd harkalega af sjálfum bændunum sem eiga sitt lifibrauð af ræktuninni. Dýralæknar gagnrýndu að dýrin hafi ekki verið aflífuð á réttan hátt og síðar kom í ljós að niðurstöður vísindamanna voru ekki jafn afdráttarlausar og í fyrstu; líkurnar á því að bóluefni, sem enn eru í þróun við COVID-19, virkaði gegn stökkbreyttu afbrigði væru góðar. Mogens Jensen, landbúnaðarráðherra, viðurkenndi síðar að ekki hefði verið lagaheimild fyrir svo róttækum niðurskurði. Margir höfðu þegar aflífað sína minka þegar upplýst var um það og vilja nú fá bætur. Jensen hefur nú sagt af sér embætti. 

Mogens Jensen, landbúnaðarráðherra Danmerkur. Mikill þrýstingur er hann að segja af sér vegna þess að ríkisstjórnin fyrirskipaði að öllum minkum í landinu skuli lógað án þess að lagaheimild væri til þess.
 Mynd: DR-Tvisen - Danmarks Radio
Spjótin beindust fljótlega að landbúnaðarráðherranum, Mogens Jensen

Loðdýraræktun í samhengi við uppruna COVID-19

Kórónuveiran sem hefur breiðst um heimsbyggðina á þessu ári er talin hafa smitast úr villtum dýrum í menn. Þaðan hefur hún smitast í minka sem margir hverjir eru hýstir við aðstæður þar sem smit milli dýra og manna eru líkleg. Minkar og ýmsar tegundir af marðarætt, eru viðkvæm fyrir kórónuveirum, eins og mannfólk. 

Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin hefur hvatt ríki heims til þess að fylgjast sérstaklega vel með viðkvæmum dýrum vegna þessa. Þá er einnig hvatt til þess að fylgst verði sérstaklega vel með því fólki sem umgengst dýrin, með tilliti til þess hvort heilsu þess stafi hætta af mögulegu smiti. Einnig eru uppi áhyggjur af því að veiran geti smitast úr minkum í rottur, mýs og úlfa. Þaðan gæti veiran borist aftur í mannfólk í framtíðinni.

„OIE heldur utan um upplýsingar um þessi tilfelli og það er alveg þekkt að kórónuveirur finnist í nánast öllum dýrategundum. En oftast er það þannig að hver dýrategund hefu sína kórónuveiru og svo geta þær farið á milli tegunda að einhverju leyti, til dæmis hafa hvalir ákveðnar kórónuveirur og einhversskonar flakk á milli er ekki óþekkt. Þannig virka líka veirur og þaða sama er með bakteríur. En þetta er sérstakt því veiran virðist smita marðardýr eins og minka, þær eru einhvernvegin næmar fyrir þessari veiru. Kettir líka þó að við getum ekki sagt til um hvernig þær myndu haga sér í köttum. En þá kemur þetta líka að því hvernig dýrahaldið er. Ef við værum með mörg þúsund ketti í hóp kæmi líklega upp sýking og stökkbreytt veira þegar hún berst á milli.“ 

epa08245911 A woman wearing a mask works in a seafood market in Guangzhou, Guangdong province, China, 25 February 2020. Guangzhou South China Sea Food Market was previously well known for exotic wildlife animals like crocodiles, yet now most of the shops in the market are closed. The Covid-19 epidemic that has killed more than 2,500 people mostly in China, has been linked to wild animals carrying a coronavirus and sold in a Wuhan wet market for food. On 24 February, China banned the trade and consumption of wild animals in order to battle coronavirus.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
 Mynd: ALEX PLAVEVSKI - EPA
Aðbúnaður á opnum matarmörkuðum hefur verið gagnrýndur

Spurningar vakna þess vegna um aðbúnað og umgengni manna sérstaklega á búsvæðum villtra dýra. Víða er gengið með ógnarhraða á villt svæði og það hefur í för með sér snögglega röskun á vistkerfum. Það getur komið mönnum í snertingu við dýr og sjúkdóma sem var áður óþekkt og þykir ekki æskilegt. Opnir matarmarkaðir með villtar tegundir í bland við aðrar og vinnslu á hráu kjöti geta verið áhættusvæði enda kjöraðstæður fyrir dreifingu sjúkdóma. Til dæmis er sjálf kórónuveiran sem veldur COVID-19 gjarnan rakin einmitt til slíkra markaða í Kína og kærulausrar meðferðar á dýrum og dýraafurðum.

„Þetta vekur náttúrulega áhyggjur en sýnir kannski hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft að raska vistkerfum. Það er mikil þörf fyrir heildarhugsun í öllum þessum málum. Það þarf að vera mikið meira samstarf milli yfirvalda, dýraheilbrigðis og yfirvalda mannaheilbrigðis til þess að skilja upprunan og áhrifin á svona sjúkdómum. Það er fyrirbærið „one health“. Sú nálgun snýst um að það sé allt skoðað saman, heilbrigði manna og dýra og heilbrigði vistkerfa og þar kemur þetta að einhver dýra eða matarmarkaður í Kína í þessu tilfelli þar sem er verið að bjóða upp á villt dýr. Þar verður uppruni að heimsfaraldri. Þetta er ekkert nýtt og getur allt gerst aftur ef við höldum svona áfram.“

Alheimsheilsan er að veði

Það er ekkert nýtt undir sólinni þegar kemur að hegðun okkar í náttúrunni. Afleiðingar gjörða okkar gagnvart náttúrunni eru sjaldnast tilviljun og oft er hægt að afstýra þeim allra alvarlegustu ef hlustað er á viðvaranir vísindamanna um að staldra við eða fara hægar í sakirnar. Ábyrgð manna er mikil sem hafa tögl og haldir á mjög mörgum sviðum náttúrunnar. Sigríður segir heilsu í stærra samhengi vera að veði. „Alheimsheilsan er undir, bæði heilsan okkar núna sem erum á heimsskrifstofu og einhver api sem að fær ekki að vera í sína náttúrulega umhverfi. Þetta setur hlutina í skrýtið samhengi,“ segir Sigríður.

Danskir loðdýraræktendur eru ekki einir í heiminum og niðurskurðurinn ekki áfellisdómur yfir ræktun þar í landi. En atburðarásin er að mörgu leyti klúðursleg og afleiðing fljótfærnislegra vinnubragða og samskiptaleysis bændastéttar, vísindamanna og stjórnvalda. En ef stigið er skref til baka í stóra minkamálinu er heildarmyndin sú að maðurinn ræktar mikið af vörum oft á kostnað annarra lífvera. Raddir þeirra sem gagnrýna skipulagðan landbúnað með dýr fara sífellt hækkandi og umræðan um aðbúnað dýra, umhverfisáhrif kjötáts og aðrar dýraafurðir hafa haft mun greiðari aðgang að meginstraumi samfélagsins. Þess vegna vakna vissulega spurningar um loðdýrarækt í samhengi við ræktun minka og gildi hennar. Hvað sé nauðsynjarvara og hvað ekki.

„Þetta er allt hluti af þessu kapítalíska kerfi sem við lifum við. Hvort sem að það er framleiðsla á mjólk eða pelsum. Kannski annarra að dæma um það hvað sé nauðsynlegt og hvað ekki. Minka eða loðdýrabúskapur fer í þessa keðju því það fellur mikið til af dýraafurðum sem nýtast ekki til manneldis en nýtist til að framleiða pels. Rök þeirra eru að það sé umhverfisvænna en gervi [...] og svo koma aftur á móti dýravelferðarsjónarmiðin hvort þessi framleiðsla sé forsvaranleg og hvort eigi að leggja hana niður alveg eins og annað dýrahald. Þetta eru bara spurningar sem hver og einn þarf að skoða þegar hann þarf að ákveða hvað hann ætlar að gera við peningana sína eða metur hlutina.“ 

Jóhannes Ólafsson