Stærsta hitamálið í Danmörku undanfarinn mánuð eða svo hefur án efa verið stóra minkamálið eins og einhverjir hafa kallað það. Milljónum minka þar í landi hefur verið lógað eftir tilskipun frá stjórnvöldum um að fella ætti allan minkastofn landsins. Ástæðan var kórónuveirusmit í minkum eða möguleg smit. Talið var að það gæti skapað mikla hættu ef nýtt tilbrigði veirunnar í dýrunum myndi gera bóluefni, sem er væntanlegt, gagnslaust. Órannsakað væri hvort afbrigðið þyldi bóluefnið. Ákvörðun danskra stjórnvalda vakti úlfúð hjá mörgum minkabændum eins og gefur að skilja og hafa þeir streist á móti og haldið fjölmenn mótmæli. Síðar kom í ljós að lagaheimild hafi skort til að ráðast í aðgerðirnar og stjórnmálamenn bentu hver á annan.
Þetta er stórmál í ljósi þess að Danir eru með eina umfangsmestu minkarækt í heimi og ef aðeins er litið Evrópu er ræktunin langmest í Danmörku. Stærsti hluti ræktunarinnar fer fram á norðurhluta Jótlands þar sem smit kom fyrst upp en það greindist fljótt á öðrum svæðum. Í yfirlýsingu frá Matvælastofnun Danmerkur stóð að kórónuveirusmitin hefðu dreifst hratt á milli minkabúa og því hafi þurft að hafa hraðar hendur. Þetta er bæði samfélagslegur og pólitískur harmleikur. Til þess að bæta gráu ofan á svart bárust fréttir af minkahræjum sem hafði verið fargað. Á einum stað á Vestur-Jótlandi höfðu hræin verið grafin of grunnt í jörðu og komu upp á yfirborðið. Það kann líka að hafa verið gert af fljótfærni og áhyggjur af umhverfisáhrifum af urðuninni vöknuðu einnig og umhverfismat á eftir að varpa ljósi á málið.
En þetta er ekki bara harmleikur vegna minkadauða heldur er hefur þetta orðið eldsmatur í pólitískum deilum. Spurningin sem hefur eitrað andrúmsloftið í dönskum stjórnmálum er: Hvenær vissi ríkisstjórnin að enginn lagalegur grundvöllur væri fyrir tilskipuninni um niðurskurðinn og hvar hefði verið hægt að vanda betur til verka til þess að lágmarka skaðann?
Tilkynningar byrja í apríl
Þegar upp koma tilfelli af nýjum sjúkdómum í dýrum senda þjóðir frá sér tilkynningu til Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar, OIE. Fyrsta tilkynningin um kórónuveirusmit í minkum barst frá í Hollandi í apríl þegar fyrsta bylgja kórónuveirunnar var í hámarki. Síðan þá hafa tilkynningar borist frá sex öðrum löndum, fimm í Evrópu og einnig frá Bandaríkjunum. Ekki er þó útilokað að smit leynist víðar. Sigríður Gísladóttir, dýralæknir loðdýrasjúkdóma hjá Matvælastofnun, segir að áhyggjurnar í upphafi hafi snúið að virkni bóluefnisins á stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar.
„Þetta greinist í Danmörku í júní í minkabúum. Danir eru með held ég önnur stærsta „minkaþjóðin“. Þau eru með yfir 15 milljónir minka um land allt og 1000 bú. Það eru núna í byrjun nóvember meira en 200 bú með staðfest smit. Svo gerist það að það fara að koma upp ný afbrigði af veirunni og 7 afbrigði greinast í DK. Þessi afbrigði smitast í fólk og svo kemur 4. nóvember tilkynning um að það hafi greinst ákveðin stökkbreyting á 5 búum sem væri svolítið frábrugðin veiruafbrigðum því hún væri þess eðlis að hún yrði á mótefnahlutanum á veirunni þannig möguleg virka ekki bóluefni. En það voru gerðar rannsóknir á mótefnum úr smituðu fólki sem hafði gengið í gegnum sýkingu og niðurstaðan væri að mótefnið virkaði ekki á þetta veiruafbrigði.“
Lóga skyldi yfir 15 milljón minkum
Þetta varð til þess að dönsk yfirvöld fyrirskipuðu niðurskurð. Mette Frederiksen, forsætisráðherra, tilkynnti í byrjun nóvember að öllum minkum í landinu, um fimmtán milljónum talsins, skyldi lógað því veiran hefði stökkbreyst og gæti borist í menn. Afleiðingarnar gætu orðið þær að bóluefni virkaði ekki við COVID-19. „Og það er eignlega neyðarástand í DK. Við þekkjum sambærilegt neyðarástand til dæmis þegar kemur upp gin- og klaufaveiki. Hraðinn á aðgerðum er þannig að allir eru kallaðir til og þá geta orðið mistök þótt erfitt sé að segja hverjum er um að kenna,“ segir Sigríður.
Það er óvíst hvort niðurstaðan um að skera minkastofninn í Danmörku eins og hann leggur sig hafi verið byggður á fullbúnum gögnum. Ákvörðunin byggðist á áhættumati vísindamanna og Matvælastofnunar Danmerkur.
Framkvæmdin hefur einnig verið gagnrýnd harkalega af sjálfum bændunum sem eiga sitt lifibrauð af ræktuninni. Dýralæknar gagnrýndu að dýrin hafi ekki verið aflífuð á réttan hátt og síðar kom í ljós að niðurstöður vísindamanna voru ekki jafn afdráttarlausar og í fyrstu; líkurnar á því að bóluefni, sem enn eru í þróun við COVID-19, virkaði gegn stökkbreyttu afbrigði væru góðar. Mogens Jensen, landbúnaðarráðherra, viðurkenndi síðar að ekki hefði verið lagaheimild fyrir svo róttækum niðurskurði. Margir höfðu þegar aflífað sína minka þegar upplýst var um það og vilja nú fá bætur. Jensen hefur nú sagt af sér embætti.