Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mikilvægur Brexit símafundur áætlaður í dag

epa08112594 British Prime Minister Boris Johnson (L) welcomes European Commission President Ursula von der Leyen (R) to 10 Downing Street in London, Britain, 08 January 2020. Johnson and Leyen are expected to discuss the future relationship between Britain and the EU after Brexit.  EPA-EFE/ANDY RAIN
Boris Johnson og Ursula von der Leyen í Downing-stræti í janúar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Samningamenn Bretlands og Evrópusambandsins gera tilraun til að leysa úr þrátefli samningaviðræðnanna með því að kalla þau Boris Johnson forsætisráðherra og Ursulu Von Der Leyen forseta framkvæmdarstjórnar ESB að borðinu. Til stendur að þau haldi símafund í dag.

Viðræðum Evrópusambandsins og Breta um viðskiptasamning var slegið á frest í gær eftir vikulanga samningalotu sem lyktaði með sameiginlegri yfirlýsingu þeirra Davids Frost og Michel Barner um að mikið bæri á milli.

Ólík skilaboð leiðtoga Evrópuríkja

Naumur tími er til stefnu en Bretar yfirgefa sameiginlegan innri markað sambandsins á gamlársdag. Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir mikilvægt að franskar útgerðir missi ekki stóran hluta aðgangs síns að breskum fiskimiðum.

Ráðherra Evrópumála í stjórn Macrons hefur gefið í skyn að Frakkar beittu neitunarvaldi væru þeir ekki sáttir við samninginn.

Talsmaður Angelu Merkel kanslara Þýskalands segir á hinn bóginn alltaf möguleika á málamiðlunum. Micheál Martin forsætisráðherra Írlands kveðst innilega vona að samningar náist.

 

Varað við of mikilli bjartsýni

Í fréttaskýringu Katyu Adler á vef breska ríkisútvarpsins BBC segir að jákvæðum lesendum þætti sennilega ekkert undarlegt að Von Der Leyen og Johnson væri áfram um að koma að samningagerðinni á lokastigum hennar.

Ekki síst sá síðarnefndi sem hefur lagt mikið kapp á að koma Brexit í gegn. Símtal þeirra í dag gæti því verið skref í rétta átt þótt heimildarmenn beggja vegna vari við of mikilli bjartsýni.

Á hinn bóginn gætu hinir kaldhæðnari fullyrt að frestun viðræðnanna nú sanni fyrir almenningi að beggja vegna borðs sé barist með oddi og egg fyrir mikilvægum hagsmunum.

Framhaldið náist samkomulag

Þegar og ef samningur næst verður hann færður á lagamál, snúið á öll tungumál Evrópusambandsins og að lokum samþykktur á Evrópuþinginu.

Loks veltur á efni samningsins hvort þjóðþing allra 27 sambandsríkjanna þurfi að samþykkja hann auk þess sem búast má við að hlutar hans verði lagðir fyrir breska þingið.