Átján námuverkamenn fórust í morgun af völdum kolmónoxíðleka í kolanámu í suðvesturhluta Kína. Að sögn ríkisfjölmiðilsins CCTV standa björgunaraðgerðir yfir en fimm eru enn í sjálfheldu neðanjarðar.
Einum hefur verið bjargað á lífi. Slysið varð þegar námumennirnir unnu að því að taka tækjabúnað í sundur en námunni var lokað fyrir tveimur mánuðum. Xinhua-fréttastofan segir jafnframt unnið að rannsókn á orsökum slyssins.
Þrennt fórst í sömu námu árið 2013 en námuslys eru mjög algeng í Kína. Reglum er oft ekki fylgt eftir og öryggismálum oft illa fyrir komið. Í september síðastliðnum létust sextán af kolmónoxíðeitrun í námu í Chongqing þegar kviknaði þar í færibandi.