Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Leiðinlegast að greina jákvætt sýni

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Vísindamönnum hefur verið fjölgað á Keldum við að anna greiningu sýna úr Skagafirði, þar sem riða hefur greinst. Þúsundir sýna hafa borist að undanförnu. Einn vísindamannanna segir leiðinlegast við vinnuna að greina jákvætt sýni.

Riða hefur greinst á fimm bæjum í Skagafirði á undanförnum vikum. Allt fé hefur verið skorið niður á fjórum þeirra og fé verður væntanlega skorið niður á þeim fimmta fljótlega. Fjölmörg sýni hafa verið tekin úr kindum á svæðinu að undanförnu. Sýnin hafa verið send úr Skagafirði og á tilraunastöðina að Keldum, þar sem vísindamenn hafa unnið hörðum höndum við að greina þau.

„Það hefur gengið ágætlega,“ segir Stefanía Þorgeirsdóttir, prófessor í líffræði. „Það er búið að vera mjög mikið að gera. Við erum búin að fá helmingi fleiri sýni á þessum tíma heldur en venjulega. Við erum búin að auka við mannskap og unnið lengri vinnudaga. Þannig að þetta gengur ágætlega.“ 

Er þetta erfið vinna?

„Þetta er handavinna og krefjandi að því leyti að þú þarft að gera allt rétt. Þetta eru faggildar aðferðir og þú þarft að fara eftir ákveðnum „prótókollum“, gera allt eins í hvert sinn og þetta er mikil nákvæmnisvinna.“

Ekki skemmtilegar fréttir

Sýnin sem borist hafa úr Skagafirðinum hlaupa á þúsundum.

„Þegar það er verið að skera niður á bæjunum, þá eru það kannski 2.000 sýni sem hafa komið í hús, og svo eru það kannski nokkur hundruð sem hafa komið þegar dýralæknarnir eru að reyna að rekja smitin eða að athuga á nágrannabæjum.“

Stefanía segir að það erfiðasta við vinnuna sé að greina jákvæð sýni.

„Það er leiðinlegt. Og það er leiðinlegt að vinna við þannig rannsóknir að þú verðir leiður þegar þú færð jákvæð sýni. Maður veit hverjar afleiðingar þess eru, að greina riðu á bæ, og þá hugsar maður bara að þetta verða ekki skemmtilegar fréttir.“