Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hvatningarverðlaun ÖBÍ veitt í fjórtánda sinn

ÖBÍ
 Mynd: RÚV
Sunna Dögg Ágústsdóttir hlaut Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands í flokki einstaklinga þegar þau voru veitt í fyrradag, á Alþjóðadegi fatlaðs fólks. Sunna er ötull talsmaður ungs fólks með þroskahömlun og hefur vakið athygli á því að fatlað fólk sé útsettara fyrir því að verða fyrir áreiti á Netinu.

Á vefsíðu Öryrkjabandalagsins segir að Hvatningarverðlaunin séu veitt þeim sem hafi með verkum sínum stuðlað að einu samfélagi fyrir alla og endurspegli nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks. Í ár þegar verðlaunin eru veitti í fjórtánda sinn bárust 25 tilnefningar frá almenningi. 

Í flokki fyrirtækja varð íþróttafélagið Ösp hlutskarpast en það hefur staðið að íþróttamótum og -æfingum fyrir börn með fötlun um fjörutíu ára skeið. Samtökin Pepp Ísland hlutu viðurkenningu fyrir þrotlausa baráttu gegn fátækt og félagslegri einangrun öryrkja og annarra minnihlutahópa en síðastliðið sumar tóku þau þátt í verkefninu „Sumarsamvera" í samstarfi við Reykjavíkurborg.

Loks var SÍBS heiðrað í flokknum verkefni aðildarfélaga Öryrkjabandalagsins fyrir að draga fram samfélagsleg áhrif með atvinnu fyrir alla í gegnum vinnustofuna Múlalund.

Engir gestir voru við athöfnina en henni var streymt á Netinu. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, verndari verðlaunanna, var viðstaddur en afhenti ekki verðlaunin eins og venja hefur verið vegna sóttvarnaráðstafana.