Þegar fréttir bárust að andláti Maradona í síðasta mánuði birti Aurelio de Laurentiis, eigandi Napoli, opið bréf þar sem hann viðraði hugmyndir sínar að breyta um nafn á vellinum til heiðurs Maradona. Nú hefur borgarráð Napoli samþykkt nafnabreytinguna en borgarstjóri Napoli, Luigi de Magistris, sagðist styðja þessa breytingu.
Borgarráð Napoli samþykkti tillöguna einróma og í yfirlýsingu frá ráðinu segir að Maradona hafi verið besti knattspyrnumaður allra tíma sem hafi heiðrað búning Napoli með hæfileikum sínum og töfrum í sjö ár og hafi áunnið sér eilífa og skilyrðislausa ást frá borginni allri.
Maradona lék í sjö ár með Napoli eftir að hann kom til liðsins frá Barcelona árið 1984. Með Maradona innanborðs sigraði Napoli ítölsku deildina tvisvar sinnu, 1987 og 1990 auk þess sem liðið vann ítalska bikarinn 1987 og Evrópubikarinn árið 1989.
Maradona spilaði 188 leiki með Napoli og skoraði 81 mark.