Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gagnrýndur fyrir óviðeigandi myndband um læknanema

05.12.2020 - 12:53
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir á Landspítalanum, hefur fjarlægt myndband og færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann sagði að kúrsinn sem hann kennir í skurðlæknisfræði væri eins og „Tinder á sjálfstýringu” og að fólk sæki þangað til að finna sér maka. Læknar við spítalann gagnrýndu Tómas í athugasemdakerfi Facebook, sem hefur nú verið fjarlægt, og sögðu þetta komið yfir öll mörk. Tómas hefur beðist afsökunar og segir myndbandið hafa verið grín.

Grínsketch frá upphafi til enda

„Af gefnu tilefni skal tekið fram að myndbandsatriði sem birtist í gær á Facebook-síðu minni þar sem ýjað er að því að ég sinni því að para saman nemendur á kúrsinum í skurðlæknisfræði á 4. ári var grínsketch frá upphafi til enda og á sér ENGA stoð í raunveruleikanum,” segir Tómas í færslu sem hann birti í hádeginu. „Söguþráðurinn er algjör tilbúningur og þeir þrír eldri og útskrifuðu nemendur sem tóku þátt í því voru hafðir með í ráðum.” 

Hið gefna tilefni er frétt Fréttablaðsins um myndbandið, sem Tómas deildi svo sjálfur á síðunni sinni í gær, en hefur nú fjarlægt. Og líklega sömuleiðis þær umræður sem sköpuðust á síðu hans í framhaldinu þar sem læknar gagnrýndu þetta harðlega. 

„Kúrsinn í skurðlæknisfræði snýst ekki bara um læknisfræði - heldur finna margir þar sinn lífsförunaut - til lengri eða skemmri tíma. Síðustu dagana hef ég ekki haft undan að svara fyrirspurnum verðandi nemenda um námskeiðið, en einnig mæðra sömu nemenda - sem og hjúkrunarfræðinga á lausu. Sumir eldri nemendur mínir hafa einnig óskað eftir að fá að taka námskeiðið aftur!” 

Nokkrar konur, allt starfandi læknar á Landspítalanum, settu athugasemdir við færsluna á síðu Tómasar í gær og sögðu þetta mjög óviðeigandi og niðurlægjandi, bæði fyrir kennara og nemendur. „Þetta er mjög óviðeigandi hegðun gagnvart læknanemum og eiginlega ennþá meira óviðeigandi að pósta þessu,” segir ein þeirra. 

Tómas hefur nú bæði fjarlægt myndbandið af Facebook-síðu sinni og færsluna þar sem hann deildi frétt Fréttablaðsins, og þar með athugasemdum læknanna. 

„Eins og Tinder á sjálfstýringu”

Fram kom í frétt Fréttablaðsins að Tómas hafi birt myndband á Facebook þar sem hann sagðist koma með útskýringu á því að íslensk læknapör væru algeng. Hann sagði þetta hafa mikið að gera með skurðlæknisfræðiáfangann sem hann kennir við Háskóla Íslands, sem hann sagði að væri „eins og Tinder á sjálf­stýringu.“

Í færslu sinni í dag segir Tómas að tilefni myndbandsins hafi verið grín og gert fyrir instagramsíðu Íslenskra læknanema. 

„Það gerði ég með nokkrum grínatriðum sem fólk getur haft skoðanir á hvort hafi verið fyndin - og einhverjum greinilega þótt óviðeigandi. Atriðið rataði í fjölmiðla án minnar vitundar - og gæti hafa valdið misskilningi þegar það er tekið úr samhengi,” segir hann í færslunni sinni. 

„Nemendur hafa haft gaman af þessu en grín getur misskilist og valdið einhverjum sársauka - sem alls ekki var tilgangurinn. Í ofangreindu ljósi bið ég þá sem þetta kann að hafa sært afsökunar á því að hafa sett þetta efni inn á Facebook.”

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV