Nokkuð annasamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Í dagbók lögreglu er að finna áttatíu og fjórar skráningar og alls gista ellefu manns fangageymslur.
Meðal þeirra handteknu eru fjórir sem sitja inni fyrir heimilisofbeldi. Lögregla heimsótti fjölda veitingastaða í borginni sem flestir voru að hennar sögn með allt á hreinu þó einhverjir þurfi að gera betur.
Brotist var inn í skartgripaverslun í miðborginni í nótt en þjófurinn náðist fljótlega með þýfið í vösum sínum. Hann gistir nú fangageymslur. Tveir voru handteknir í Kópavogi í nótt grunaðir um ræktun fíkniefna.
Hald var lagt á plöntur og búnað til fíkniefnagerðar. Bíl var ekið á hurð verslunar í Neðra-Breiðholti og stungið af. Starfsmaður sem var að skúra verslunina tilkynnti atburðinn til lögreglu.
Ráðist var á unga konu í Grafarvogi, sá sem það gerði var farinn þegar lögregla kom að en konan fór sjálf á bráðadeild með áverka á höfði.