Allir tólf sem greindust með COVID-19 veiruna í fyrradag voru í sóttkví. Það segir forsætisráðherra að sé jákvætt. „Það gefur okkur vonir um að við séum að ná utan um smitið, að smitrakning sé að skila árangri og þetta séu þá einangruð hópsmit. Við þurfum að meta stöðuna næstu daga, hvort að við séum búin að ná tökum á þessari aukabylgju sem við upplifðum á síðustu dögum.“
Rætt var við Katrínu eftir ríkisstjórnarfund í gær. Aðspurð hvort henni þætti líklegt að búið væri að ná utan um bylgjuna svaraði hún: „Ég vil hafa fleiri daga undir áður en ég segi til um það en mér fannst góð tíðindi að sjá þetta háa hlutfall í sóttkví.“
Katrín var meðal annars spurð hvort hún sæi fyrir sér að gefin væru út mismunandi fyrirmæli eftir landshlutum, líkt og sóttvarnalæknir hefur getið sem möguleika í minnisblaði til heilbrigðisráðherra. „Nú tökum við afstöðu til framhaldsaðgerða á næsta ríkisstjórnarfundi og munum væntanlega funda í ráðherranefnd á mánudaginn um þær. Ég vil segja: Vonandi geta einhverjar tilslakanir orðið en ég held að við verðum öll að horfa á það að jólin okkar verða öðru vísi en hefðbundin jól. Ég bind vonir við að við séum að ná þeim tökum á faraldrinum að það verði ákveðin hlé sem gefa okkur hugarró inn í jólin. Ég held að við verðum öll að vera meðvituð um að þetta eru öðruvísi jól og öðruvísi aðventa. Mér finnst enn og aftur mjög aðdáunarvert að sjá tónlistarmenn bregðast við með stafrænum útsendingum á jólatónleikum, jólaföndur í skólum er flutt heim til foreldra, og svo framvegis. Enn og aftur finnst mér fólk vera að sýna ótrúlegan sveigjanleika í viðbrögðum við faraldrinum.“