Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjartsýni eykst á að samkomulag náist við Talibana

epa08857071 Afghan soldiers attend their graduation ceremony after military training in Herat, Afghanistan, 02 December 2020. Commander of the third division of the 207th Zafar Corps training center said the soldiers were trained in professional military training for eight weeks.  EPA-EFE/JALIL REZAYEE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Afganska ríkisstjórnin getur einbeitt sér að viðureigninni við samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki, eða Daesh, gangi friðarviðræður við Talibana eftir. Viðræðurnar hafa staðið yfir í Katar frá því í september.

Þær hafa farið fram í skugga ofbeldis sem hefur riðið yfir Afganistan undanfarna mánuði en íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á fjölda árása á berskjölduð skotmörk í landinu.

Þrátt fyrir að samtökin hafi verið hrakin af þeim landsvæðum sem þau sölsuðu undir sig og skorið hafi verið á fjármögnunarleiðir til þeirra ná þau enn að skapa ógn og skelfingu að sögn Hamdullah Mohib þjóðaröryggisráðgjafa afgönsku ríkisstjórnarinnar.

Í samtali við AFP fréttastofuna segir hann unnið að kappi við að koma í veg fyrir árásir samtakanna á borgir í landinu. „Náist samkomulag við Talibana getum við einbeitt okkur að Daesh,“ segir Mohib.

Nokkuð hefur miðað í samkomulagsátt milli ríkisstjórnarinnar og Talibana undanfarna daga en Mohib viðurkennir að allir séu löngu orðnir örmagna eftir fjögurra áratuga átök í landinu. „Ágreiningsefnin eru auðvitað mörg, en með réttu hugarfari trúi ég því að friðarsamkomulag náist,“ segir Mohib.

Friðarviðræðurnar byggja á samkomulagi sem Donald Trump Bandaríkjaforseti gerði við leiðtoga Talibana í febrúar síðastliðnum. Þar hét forsetinn því að draga herlið frá Afganistan gegn loforði um friðarviðræður. 

Hamdullah Mohib hefur nokkrar áhyggjur af brotthvarfi Bandaríkjahers úr landinu því liðstyrkur þeirra hefur tryggt yfirburði stjórnarhersins gagnvart Talibönum.