Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vörubílar fullir fisks fastir í Baldri

04.12.2020 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Sex vörubílar sem eru að flytja eldislax til Þorlákshafnar í útflutning og nokkrir einkabílar sitja nú fastir í ferjunni Baldri í Stykkishólmi. Það er vegna lágrar sjávarstöðu, en við þau skilyrði er of bratt fyrir vörubíla til að komast upp úr ferjunni.

Líklega verður ekki hægt að keyra upp úr ferjunni fyrr en um hálf fimm, þegar sjávarstaða hækkar. Baldur er nú þegar þó nokkuð á eftir áætlun, en hann átti sigla frá Stykkishólmi klukkan þrjú.

Hafnarstjóri í Stykkishólmi segir þetta koma fyrir einu sinni eða tvisvar á ári, en væri hægt að komast hjá því ef brúin væri lengd um þrjá, fjóra metra. Hún hafi þegar verið lækkuð fyrir fjórum árum til að henta aðstæðum betur.

Nokkrir vörubílar komust þó ekki fyrir í Baldri og keyrðu því landleiðina suður með fisk.

Uppfært klukkan 17:40: Sjávarstaða hefur hækkað og bílarnir eru komnir út.