Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump kallar hermenn frá Sómalíu

04.12.2020 - 23:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Nánast allir þeir 700 bandarísku hermenn sem eru í Sómalíu verða fluttir frá landinu áður en Joe Biden tekur við embætti forseta 20. janúar. Þetta er liður í viðleitni sitjandi forseta, Donald Trumps, í að hætta þátttöku í því sem hann hefur kallað eilífðarstríð.

Frá þessu greindi bandaríska varnarmálaráðuneytið. Samkvæmt yfirlýsingu felur þetta þó ekki í sér að Bandaríkin séu að draga sig til hlés í Afríku og enn muni þau styðja við bakið á bandamönnum í álfunni.

Ekki sé um að ræða breytingu á stefnu landsins þó að hermennirnir séu fluttir á brott. Bandaríkin munu halda áfram baráttu sinni við vopnaða öfgahópa sem ógna landinu og viðhalda forskoti sínu í baráttu við önnur stórveldi eins og það er orðað í yfirlýsingunni. Bandaríkjaher verður áfram með herstöðvar í nágrannaríkjunum Kenía og Djibútí. Þaðan eru gerðir út drónar en með þeim hafa verið gerðar loftárásir í Sómalíu. Frá því Trump tók við völdum 2017 hefur fjöldi loftárása aukist mikið.

Hermennirnir verða þó ekki kallaðir til síns heima heldur verður hluti þeirra fluttur frá austurhluta Afríku. Aðrir verða fluttir til nágrannaríkja og áfram taka þátt í aðgerðum gegn öfgahópum í Sómalíu. Er þar helst að nefna íslömsku öfgasamtökin Al-Shabaab sem réðu um tíma ríkjum í landinu og sóru hollustueið við al-Kaída samtökin árið 2012.

Hundreds of newly trained Shabaab fighters perform military exercises in the Lafofe area some 18Km south of Mogadishu on Thursday Feb. 17, 2011.  In information which could not be independently verified,  Islamist officials who spoke during the show of
Liðsmenn al-Shabab hryðjuverkasamtakanna Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP Photo/Farah Abdi Warsameh
Vígamenn Al-Shabaab.

Vera bandarískra hermanna í Sómalíu hefur verið í sviðsljósinu vestanhafs að undanförnu en þar lést margreyndur meðlimur bandarísku leyniþjónustunnar CIA í skotbardaga fyrir skömmu. Meðal þeirra verkefna sem bandarískt herlið hefur sinnt í landinu er að þjálfa sómalska hermenn og veita þeim ráðgjöf, auk þess að berjast gegn öfgamönnum.

Fram undan eru þingkosningar í Sómalíu í janúar og forsetakosningar í febrúar. Sömuleiðis geisar stríð handan landamæranna í Tigray-héraði í Eþíópíu þar sem stjórnarherinn tekst á við sveitir Þjóðfrelsishreyfingar Tigray (TPLF).

Kallar hermenn frá Írak og Afganistan

Trump tilkynnti fyrir skömmu að hann hygðist kalla meira en helming hermanna heim frá Afganistan og draga mjög úr herstyrk í Írak. Þá verða um 2500 bandarískir hermenn í hvoru landi fyrir sig. Fyrr í vikunni rak forsetinn yfirmann hjá varnarmálaráðuneytinu sem hafði umsjón með baráttunni gegn samtökum sem kenna sig við íslamskt ríki þar sem því stríði væri lokið með fullnaðarsigri. Starfið var svo lagt niður.

Á lokamánuðum stjórnar Trumps hafa staðið yfir umfangsmiklar hreinsanir í varnarmálaráðuneytinu. Fyrir nokkru lét forsetinn Mark T. Esper varnarmálaráðherra taka pokann sinn og sömuleiðis voru margir háttsettir embættismenn innan ráðuneytisins látnir fara. Í stað þeirra komu menn sem hliðhollir eru forsetanum, meðal annars starfandi varnarmálaráðherra Christopher C. Miller. Hann hefur nú umsjón með því að framfylgja fyrirmælum forsetans um að koma sem flestum bandarískum hermönnum heim.

epa08818272 Acting Secretary of Defense Christopher Miller waits to welcome Lithuanian Minister of Defense Raimundas Karoblis as he arrives at the Pentagon in Arlington, Virginia, USA, 13 November 2020. Secretary Miller was appointed by Trump on 09 November after he fired Secretary of Defense Mark T. Esper.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA
Christopher C. Miller starfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.