Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Skulum ekkert láta okkur bregða við fjórðu bylgjuna“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Búast má við að minnsta kosti einni bylgju kórónuveirufaraldursins til viðbótar. Ekkert fararsnið er á veirunni og við þurfum að aðlaga okkur að því að búa við hana að minnsta kosti fram á vor. Leyfa þyrfti íþróttir og líkamsrækt í meiri mæli en nú er, svo fólk haldi ástandið út. Þetta segir Ragnar Freyr Ingvarsson umsjónarlæknir COVID-göngudeildar Landspítala.

Ragnar Freyr var gestur Morgunútvarps Rásar tvö í morgun.

„Við vissum að önnur og þriðja bylgjan myndi koma og við skulum ekkert láta okkur bregða þó fjórða bylgjan komi. En ég held að í því ljósi verðum við að nota meira þá þekkingu sem við höfum aflað okkur og lifa með þessari veiru,“ sagði Ragnar Freyr. Hann sagði að fátt annað væri í stöðunni en að aðlaga sig veirunni og læra að búa við hana. 

„Mér finnst að við ættum að lifa betur með þessu, leyfa íþróttir í meiri mæli , leyfa fólki að stunda einhverja líkamsrækt og sund en með verulegum takmörkunum þó. Þannig að við höldum þetta út.“

Ragnar Freyr sagði að nýta eigi þá þekkingu sem hafi fengist um hegðun veirunnar og smitleiðir.

Við vitum meira nú en í upphafi

„Við vitum miklu meira en við gerðum í upphafi fyrstu, annarar og þriðju bylgju. Við áttum okkur núna á því miklu meira hvar veiran smitar; hún smitar mest þegar fólk er að hittast í heimahúsum innan fjölskyldna og á öldurhúsum þar sem áfengi er um hönd.“

Ragnar Freyr sagði hæpið að smit gætu borist í mörg þúsund fermetra verslunarhúsnæði þar sem allir væru með grímur og hanska og sprittuðu sig.  Það væru skrýtið að sjá langar raðir fyrir utan „stór verslunargímöld“.

„Það ögrar pínulítið því sem við vitum um veiruna. Við eigum að spila á það sem við kunnum,“ sagði Ragnar Freyr.

Hann sagði hlutverk sóttvarnayfirvalda er ekki öfundsvert og sagðist ekki ætla að þykjast vita meira en þau sem stýra sóttvarnaaðgerðum.  En huga ætti að því að leyfa aðilum, sem hafa sýnt að þeir sinni sóttvörnum vel, að standa fyrir íþróttastarfsemi og hafa fleiri viðskiptavini í verslunum sínum en fjöldatakmarkanir gera ráð fyrir.

 „Við ættum að treysta þessum aðilum til að prófa sig. Við getum alltaf bakkað til baka, ef út af bregður,“ sagði Ragnar Freyr.