
Skorað á ríkisstjórnina að lengja tíma atvinnuleysibóta
Í Morgunblaði dagsins kemur fram að nú fái 319 einstaklingar fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ til framfærslu en fyrir ári voru þeir 195. Þrengja tók að á atvinnumarkaði þar við fall flugfélagsins WOW, allnokkru áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.
Vitnað er í bókun bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ þar sem fram kemur að sporna þurfi við þessari miklu aukningu, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sé mun lægri en grunnatvinnuleysisbætur og því sé erfitt fyrir fólk að treysta á þær til framfærslu.
Atvinnuleysi í sveitarfélaginu nemi um tuttugu og tveimur af hundraði sem einkum megi rekja til þess að Keflavíkurflugvöllur er stopp vegna faraldursins.
Haft er eftir Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra að átak í atvinnumálum og velferðarstuðningur haldi áfram á næsta ári en fjárhagsáætlun bæjarins gerir ráð fyrir að gjöld bæjarsjóðs verði þá 2,4 milljarða umfram tekjur.