Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Samherjamaður vildi svipta Helga Seljan Edduverðlaunum

Mynd með færslu
 Mynd: Eddan
Einn af stofnendum og eigendum útvegsfyrirtæksins Samherja, Kristján Vilhelmsson, fór þess á leit við Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademínuna (ÍKSA) að Helgi Seljan fréttamaður RÚV yrði sviptur Edduverðlaunum í byrjun síðasta árs.

Frá þessu er greint á vef Stundarinnar. Þar kemur fram að Kristján, útgerðarstjóri og áður einn stærsti hluthafi í Samherja, hafi viljað að Helgi yrði sviptur verðlaunum sem hann hlaut fyrir besta sjónvarpsmann Íslands árin 2016 til 2017 eftir að hann bar sigur úr býtum í kosningum almennings um verðlaunin. Stjórn ÍKSA hefur ekki viljað tjá sig um beiðni Kristjáns um að svipta Helga Seljan verðlaununum og tjáð honum að það sé ekki í hennar verkahring að svipta verðlaunahafa verðlaunum sem veitt eru með atkvæðum almennings.

Þetta er í fyrsta sinn sem utanaðkomandi hefur sýnt slíka viðleitni í þau rúmu tuttugu ár sem verðlaunin hafa verið veitt að sögn Stundarinnar. Kristján sendi Auði Elísabetu Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra ÍKSA tölvupóst þessa efnis 17. janúar 2019.

Frá því að tölvupósturinn var sendur er Kristján ekki lengur einn stærstu hluthafa Samherja þar sem hann hefur selt stóran hluta hlutabréfa sinna í Samherja til barna sinna. Stundin hefur tölvupóstinn undir höndum og sendi hann frá netfangi sínu hjá Samherja og bar yfirskriftina „Helgi Selj­an“ og þar sagði hann meðal annars: Sæl. Er svona fölsun frétta­manns til­efni til að draga verð­laun hans til­bak­a?

Elín sakar Kastljós um „forkastanleg vinnubrögð“

Í viðhengi var grein eftir Elínu Björgu Ragnarsdóttur, lögfræðing og fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka fiskframleiðanda og útflytjenda, sem birtist í Morgunblaðinu sama dag og pósturinn var sendur. Greinin bar yfirskriftina „Forkastanleg vinnubrögð Kastljóss“ þar sem hún gagnrýndi harðlega vinnubrögð Kastljóss í þætti sem sendur var út 12. mars 2012. Þar var meðal annars tekið viðtal við Elínu sem hún segir í greininni hafa verið afbökun á orðum hennar.

„Í viðtalinu var á engan hátt rætt um sjófrystingu eða viðskipti með þær afurðir eins og látið var líta út fyrir í umfjöllun RÚV. Að klippa út valinn hluta úr viðtalinu þannig að liti út fyrir að ég væri að saka fyrirtæki um ólöglega hluti finnst mér ámælisverð vinnubrögð og RÚV til vansa,“ sagði hún í tölvupósti sem hún sendi til Páls Magnússonar, þáverandi útvarpsstjóra, fréttastofu RÚV og Kastljóss.

Þegar þátturinn var sendur út hafði Elín látið af störfum framkvæmdastjóra og starfaði þá sem lögfræðingur með sérhæfingu í lögfræðiaðstoð við útgerðir og fiskvinnslur. Í greininni sagði hún að þessi umfjöllun „hafði því alls ekki góð áhrif á mitt líf og lífsviðurværi.“

Viðtalið ekki á fölskum forsendum

Helgi Seljan og Sigmar Guðmundsson, fréttamaður og fyrrverandi ritstjóri Kastljóss, sögðu í grein í Morgunblaðinu 29. janúar í fyrra alrangt hjá Elínu að viðtalið við hana árið 2012 hafi verið tekið á fölskum forsendum.

„El­ínu var all­an tím­ann ljóst að viðtalið sem tekið var við hana yrði birt í um­fjöll­un um gagn­rýni á tvö­falda verðmynd­un á fiski og það sam­keppn­is­for­skot sem út­gerðir, sem einnig áttu eig­in sölu­fyr­ir­tæki er­lend­is, hefðu af þeim sök­um. Og ná­kvæm­lega þannig birt­ist viðtalið,“ skrifuðu þeir Helgi og Sigmar í Morgunblaðið. Ekki hafi verið rétt að ekki verið haft samband við Elínu fyrir og eftir Kastljósviðtalið.

„Nú hef ég sannreynt að í inngangi að umræddum 6 ára gömlum Kastljóssþætti er skýrt tekið fram, að títtnefnt viðtal við greinarhöfund var tekið áður en kunnugt var um að rannsókn væri hafin á nafngreindu fyrirtæki. Því verður því ekki haldið fram með réttu að viðtalið hafi verið tekið og birt á fölskum forsendum. Rétt skal vera rétt,“ sagði Páll á Facebook-síðu sinni í fyrra varðandi ásakanir Elínar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján Vilhelmsson

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem greint er frá því að Kristján hafi gagnrýnt nafngreint fólk fyrir gagnrýna umfjöllun um sjávarútvegsmál eða hann sjálfan. Í bókinni „Ekk­ert að fela – Á slóð Sam­herja í Afr­ík­u“, eftir Helga Selj­an, Aðal­stein Kjart­ans­son og Sté­fan Aðal­stein Drengs­son kemur fram að Kristján sendi til bandaríska háskólans Columbia vegna skrifa Jóns Steinssonar hagfræðings og starfsmanns við skólann. Jón hafði þá skrifað um sjávarútveg hérlendis og fjárfestingar útvegsfyrirtækja sem hann birti undir eigin nafni og kom nafn háskólans hvergi fram.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV