Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Djúpstæðar afleiðingar verði fátæk ríki út undan

epa08209243 Tedros Adhanom Ghebreyesus, Director General of the World Health Organization (WHO), informs the media about the update on the situation regarding the novel coronavirus (2019-nCoV), during a new press conference, at the World Health Organization (WHO) headquarters in Geneva, Switzerland, 10 February 2020. The novel coronavirus (2019-nCoV), which originated in the Chinese city of Wuhan, has so far killed at least 910 people and infected over 40,000 others, mostly in China. The death toll from the novel coronavirus has surpassed the death toll from SARS epidemic of 2002-2003.  EPA-EFE/SALVATORE DI NOLFI
 Mynd: EPA-EFE - Keystone
Heimurinn er nálægt því að sjá fyrir endann á kórónuveirufaraldrinum, sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnarinnar, í ávarpi sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag. Hann varaði við því að það geti haft mjög djúpstæðar efnahagslegar og félagslegar afleiðingar ef bóluefnum verði ekki dreift á sanngjarnan hátt um heiminn. 

Efnameiri ríki heims hafa flest þegar tryggt sér kaup á bóluefnum þegar þau koma á markað. Mál málanna á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, sem fór fram í gegnum fjarfundarbúnað í dag, var dreifing á bóluefni til fátækari ríkja heims sem ekki hafa burði til að gera samninga um kaup á slíku. 

„Við getum ekki sætt okkur við veröld þar sem þau ríku traðka á þeim fátæku í kappi um bóluefni, sagði framkvæmdastjórinn í ávarpi sínu. Hann minnti á að þetta væri heimsfaraldur og að það þyrfti að dreifa lausninni við honum jafnt um heiminn. Kapphlaup um bóluefni megi ekki verða til þess að auka ójöfnuð og stuðla að því enn fleiri verði útundan. 

Tryggja á fátækum ríkjum bóluefni í gegnum ríkjasamstarfið COVAX en fram kom í máli framkvæmdastjórans að enn vanti háar fjárhæðir til að þær áætlanir geti orðið að veruleika. Á þessu ári vanti 4,3 milljarða Bandaríkjadali, sem jafngildir um 540 milljörðum íslenskra króna. Á næsta ári vanti hins vegar tæpa 24 milljarða bandaríkjadala. 

Ghebreyesus varaði einnig við því að það væru fjölmargar aðrar áskoranir á alþjóðavísu, fyrir utan faraldurinn. „Það eru ekki til nein bóluefni gegn fátækt eða hungri,“ sagði hann. „Né gegn ójafnrétti. Það er ekkert bóluefni við loftslagsbreytingum.“

Bretland varð í fyrradag fyrsta vestræna ríkið til að samþykkja dreifingu á bóluefni Pfizer og BioNTech við COVID. Þar er stefnt að því að hefja bólusetningu í næstu viku. Búist er við að Bandaríkin og fleiri ríki fylgi í kjölfarið á næstu dögum.