Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Búist við 16.000 nemum við HÍ — aldrei verið fleiri

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Háskóla Íslands bárust hátt í 1.800 umsóknir um grunn- eða framhaldsnám fyrir komandi vormisseri. Þetta eru um það bil 60% fleiri umsóknir en á sama tíma í fyrra. Reiknað er með að um 16.000 muni stunda nám við skólann á næsta ári.

Skólinn hefur tekið inn nemendur í takmarkaðan hluta námsleiða í grunn- og framhaldsnámi á vormisseri á hverju ári. Umsóknarfresti um grunnnám lauk 30. nóvember og skólanum bárust alls 617 umsóknir. Það er um 50% fleiri umsóknir en á sama tíma í fyrra þegar þær voru 414.

Fjöldi umsókna á framhaldsstigi er tæplega 1.150 en hann var tæplega 680 í fyrra. Fjölgun umsókna í framhaldsnámi nemur því nærri 70% milli ára og heildarfjölgun umsókna um nám við skólann á vormisseri nærri 60% á milli ára sem fyrr segir. Inni í þessum tölum eru ekki umsóknir um doktorsnám.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands er líkum leitt að því að þetta sé vegna áhrifa kórónaveirunnar á íslenskt samfélag og atvinnulíf. Nú þegar stunda 15.000 manns nám við skólann, sem er metfjöldi.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir