Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Brexit, enn ein ögustundin

04.12.2020 - 16:22
epa08861419 European Union (EU)'s Chief Negotiator Michel Barnier (C) departs his hotel in London, Britain, 04 December 2020. British and EU negotiators are holding talks to thrash out a Brexit deal ahead of the 31 December 2020 transition deadline.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fulltrúar bresku stjórnarinnar og Evrópusambandsins gera nú enn eina tilraunina til að semja um framtíðarsamskipti eftir að Bretar ganga endanlega úr ESB um áramótin. Sendinefnd ESB, með Michel Barnier í fararbroddi, átti að fara heim til Brussel í dag, en framlengdi dvöl sína í Lundúnum.

Samningamenn verjast frétta

Litlar sem engar áreiðanlegar fregnir hafa borist af gangi viðræðna, en hálfdulbúnar hótanir hafa heyrst frá ráðamönnum. Alok Sharma, viðskiptaráðherra Breta, sagði að samningar tækjust ekki nema að Evrópusambandið viðurkenndi að Bretar væru sjálfstæð, fullvalda þjóð.

Frakkar minna á neitunarvald ESB þjóða

Clément Beaune, Evrópuráðherra frönsku ríkisstjórnarinnar, gaf í skyn að Frakkar beittu neitunarvaldi ef þeir teldu samninganefnd ESB gefa of mikið eftir. Sú hætta er fyrir hendi sagði Beaune. Við gætum hagsmuna atvinnulífsins, sjómanna og ferðalangar verða að vita hvað verður.

Fórna ekki meiri hagsmunum fyrir minni

Beaune sagði að Frakkar ætluðu ekki að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Ýmsir í ESB löndum hafa látið í það skína að það kæmi Bretum verr en ríkjum ESB ef samningar takast ekki. Fréttaskýrendur segja að digurbarkalegar yfirlýsingar séu mest ætlaðar til heimabrúks, báðum sé ljóst að miklir hagsmunir séu í húfi og því sé nú reynt til þrautar að ná samkomulagi.