„Botninn verður dýpri í hvert skipti sem ég fell“

Mynd: RÚV / RÚV

„Botninn verður dýpri í hvert skipti sem ég fell“

04.12.2020 - 10:04

Höfundar

Dóra Jóhannsdóttir leikkona var í meðferð á Vogi þegar tilkynnt var að hún hefði fengið tilnefningu til Eddunnar. Henni þótti að mörgu leyti sárt að geta ekki skálað fyrir áfanganum en var líka fegin því að fá tækifæri til að átta sig á því að hún væri með sjúkdóm og að vegferðin í átt að bata væri hafin

Dóra var vön því að fá sér oft í glas í góðra vina hópi og taldi sig njóta þess að skála við vini sína og skemmta sér. Fyrir um sex árum síðan áttaði hún sig hins vegar á því að hún hefði sjálf ekki stjórn á neyslunni og að hún væri að drekka meira og oftar en hún kærði sig um.

Hún reyndi að taka sig á en vandinn fór aðeins versnandi. Dóra fann fljótt að hún stóð sig ekki eins vel í vinnunni og hún vildi og sinnti ekki heimilinu eins vandlega og hana langaði. Drykkjan stóð í vegi fyrir því. Dóra segir sína sögu í Söfnunarþætti SÁÁ sem er á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 19.40.

Fannst hún vera andsetin

Hún ákvað að hætta endanlega að drekka árið 2018 en það gekk ekki þrautalaust. „Þetta voru ótal föll þetta eina og hálfa ár sem ég var inn og út úr meðferð. Nánast á hverjum degi vaknaði ég, langaði ekkert meira en að verða edrú en ég náði því ekki. Ég skildi ekkert hvað væri í gangi. Það var eins og ég væri andsetin eða eitthvað.“ Hún hélt áfram að falla og í hvert sinn leið henni verr en í fyrra skiptið. „Svo verður botninn alltaf dýpri í hvert skipti sem ég fell.“

Sama hvort þú drekkir hvítvín á bak við gardínu eða sprautir þig í kjallara

Á Vogi lærði Dóra að sætta sig við að hún væri með sjúkdóm. Ferlið segir hún hafa verið afar lærdómsríkt. „Mér fannst ég bara djammari og hress. Mér datt ekki í hug að ég væri alkóhólisti,“ segir hún. „En það skipti ekki máli hvort þú ert að drekka hvítvín á bak við gardínu eða að sprauta þig í einhverjum kjallara. Þetta er sami sjúkdómurinn. Ég sé það algjörlega. Það skiptir ekki máli í hvernig neyslu þú varst því það fylgir þessu óheiðarleiki.“

Í dag furðar hún sig stundum á sjálfsblekkingu þeirrar konu sem hún var fyrir aðeins nokkrum árum síðan. „Ég er hissa að ég hafi haldið að það væri bara gaman hjá mér.“

Hlakkar til að fá sér hvolp og baka skinkuhorn

Þó hún kæri sig ekki lengur um að skála fyrir sigrum í lífinu og merkilegum áföngum þá finnur hún aðrar leiðir til að fagna. „Ég var í meðferð þegar ég frétti að ég hefði verið tilnefnd til Eddunnar fyrir eitthvað sem ég gerði. Ég hugsaði bara: Ég á að vera annars staðar að skála, sko,“ segir hún.

En hún er fegin því að hafa verið nákvæmlega þar sem hún var og þar sem hún er í dag. „Fókusinn minn er meira inn á við heldur en á að skrifa til dæmis besta Áramótaskaup ever,“ segir hún kímin. „Ég er að missa mig yfir að vera að fara að fá mér hvolp og ég get ekki beðið eftir að baka skinkuhorn með stráknum mínum á sunnudaginn.

Allt viðtalið við Dóru verður sýnt í þættinum Fyrir fjölskylduna, Söfnunarþætti SÁÁ í kvöld. Málefni SÁÁ og staða málaflokksins í þjóðfélaginu rædd og fé safnað til styrktar samtökunum. Boðið upp á tónlistar- og skemmtiatriði.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Sjúkdómurinn bitnar ekki síst á börnunum

Tónlist

Didda syngur „Til hvers er ég?“

Tónlist

Að skunda skakkur bara nógu grýttan veg