Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bíða með snjómokstur vegna veðurs

04.12.2020 - 08:06
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Beðið er eftir því að veður gangi niður svo hægt verði að hefja snjómokstur á Norðausturlandi. Þetta segir Magnús Jóhannsson verkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ. Vetrarfærð er þar á vegum, þar er hvasst, éljagangur og skafrenningur. Ófært er á Hólasandi á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði, Hófaskarði og í Bakkafirði.

„Við bíðum átekta með mokstur, það er mikið dimmviðri og ekkert ferðaveður á fjallvegum,“ segir Magnús. „Við vonum að það verði fyrir hádegi.“

Vetrarfærð er á landinu og eru margir vegir ýmist lokaðir eða ófærir á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi vegna veðursins síðustu daga. Samkvæmt vefsíðu Vegagerðarinnar er verið að kanna með flestar leiðir og vonast er til að sem flestar verði opnaðar er líður á morguninn.