Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vindkæling magnar frostið upp í allt að 30 stig

03.12.2020 - 09:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Kalt heimskautaloft er yfir landinu og spáð er allt að 12 stiga frosti. Lágar hitatölur segja ekki alla söguna því við bætist vindur sem eykur á kælinguna. Veðurfræðingur segir að þar sem þessara áhrifa gætir mest á landinu verði kælingin á við 30 stiga frost.

Páll Ágúst Þórarinsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að vindkælingar hafi orðið vel vart á höfuðborgarsvæðinu í morgun.

„Til dæmis hérna í höfuðborginni í morgun þegar fólk var á leiðinni í vinnuna á milli klukkan 7 og 8, þá voru 5-6 gráðu frost og á milli 11 og 12 metrar á sekúndu sem  væri eins og að fara út í 15 stiga frosti í blankalogni. Það er svolítið kaldara,“ segir Páll.

Hann segir að vindkælingar gæti meira annars staðar á landinu. Til dæmis á fjallvegum. „Þar getur verið kaldara og hvassara. Þar getur vindkælingin verið kannski á milli mínus 20 og 30 stig.“

Páll segir að hitastig muni lækka meira. „Það gerir það föstudag og laugardag þegar vindur dettur niður og léttir kannski aðeins til. Þá eykst útgeislun mikið og hitastigstölur lækka, kannski niður í 8-10 stiga frost til dæmis á höfuðborgarsvæðinu en vindáhrifin verða þá ekki til staðar. Þannig að fólki finnst kannski svipað kalt.“