Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Verja 150 milljónum í að kynna Reykjavík sem áfangastað

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Reykjavíkurborg ætlar að ráðast í 150 milljóna króna herferð til þess að kynna borgina sem áfangastað fyrir ferðamenn. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, segir að svo miklu fé hafi ekki verið varið í markaðsherferð fyrir borgina árum saman.

„Það er búið að vinna greiningarvinnuna og markhópana þannig að við erum eiginlega tilbúin. Við erum búin með ferðamálastefnuna, og höfum átt ótrúlega gott og dýnamískt samband við hagaðilana,“ segir Þórdís Lóa.

En nú eru stjórnvöld að verja einum og hálfum milljarði í sína markaðsherferð, felst ekki einhver tvíverknaður í þessu, af því að nú koma flestir ferðamenn á einhverjum tímapunkti til Reykjavíkur?

„Það mætti halda það. En við erum í raun að tengja okkur við herferð Íslandsstofu. Og þar erum við sérstaklega að draga fram áfangastaðinn Reykjavík, hvernig hann getur staðið einn og sér. Því auðvitað eru allir að koma til Íslands og við erum í rauninni að græða á því, það er alveg vitað mál. En við viljum draga fram sérstöðu Reykjavíkur. Og í það erum við að setja þennan pening. Og við erum líka að nýta styrk Íslandsstofu og ná þessum markmiðum saman.“

Þannig að þessi herferð fer af stað þegar aðeins minni óvissa verður í loftinu?

„Já ég sé fyrir mér grænan takka sem við bara berjum á,“ segir Þórdís Lóa.