Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Trúnaðarherbergi útbúið með gögnum um Arnarholt

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Borgarskjalasafnið hefur lagt til við borgarráð að sett verði upp trúnaðarherbergi í húsnæði safnsins við Tryggvagötu þar sem borgarfulltrúum gefst kostur á að kynna sér þau skjöl um Arnarholt sem varðveitt eru hjá safninu. Borgarfulltrúar verða að undirrita sérstaka trúnaðaryfirlýsingu um að þeir megi ekki birta, afhenda eða nota upplýsingarnar.

Í svari Borgarskjalasafnsins við fyrirspurn borgarfulltrúa Miðflokksins kemur fram að töluvert sé af skjölum sem varði starfsemi Arnarholts frá upphafi 1945 til lokunar 1996.  Þegar hefur trúnaði verið aflétt af umræðum um vistheimilið í borgarstjórn árið 1971.

Í svarinu er bent á að Borgarspítalinn hafi verið rekinn af Reykjavíkurborg frá 1967 til 1996 og skjöl um Arnarholt séu varðveitt í skjalasöfnum fjölmargra afhendingarskyldra aðila. Þau séu óvenju viðamikil og rúmlega áætlaður fjöldi er á bilinu 2 til 3 þúsund blaðsíður.

Í svarinu kemur einnig fram að hluti skjalanna teljist til trúnaðarskjala þar sem þau varði viðkvæmar persónuupplýsingar. Ekki sé því hægt að afhenda þau borgarráði til umfjöllunar án þess að afmá úr skjölunum persónugreinanleg auðkenni. Slíkt yrði umfangsmikið og tímafrekt sem krefðist töluverðrar undirbúningsvinnu.

Borgarskjalasafnið leggur því til að sett verði upp trúnaðarherbergi og að borgarfulltrúar fái að kynna sér skjölin gegn undirritun sérstakrar trúnaðaryfirlýsingar. Þeir mega því mæta í afgreiðslu safnsins miðvikudaginn 9. desember milli 13-15 og lesa skjölin þegar þeir hafa undirritað trúnaðaryfirlýsinguna. 

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, þakkaði safninu fyrir samantekt á gögnum sem til væru í málefnum Arnarholts. „Borgarfulltrúi ætlar ekki, vill ekki og getur ekki nýtt sér þá heimild sem kjörnum fulltrúa er veitt gagnvart skoðun gagna í málinu.“

Fréttastofa hefur fjallað ítarlega um mál vistheimilisins Arnarholts. Fársjúkt fólk sem dvaldi á vistheimilinu til ársins 1971 var sett í einangrun í litlum fangaklefum vikum saman og starfsfólk lýsti órannsökuðum andlátum vistmanna og vanrækslu sem leiddi til andláts.