Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta hefur einhvern veginn bjargast hjá okkur í dag“

03.12.2020 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Lögreglan á Norðurlandi eystra segir daginn hafa gengið vonum framar. Vonskuveður hefur verið í umdæminu en fólk lítið á ferðinni. Það sama má segja um umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra þar sem allt er með kyrrum kjörum.

Engin óhöpp og fá útköll

„Þetta hefur einhvern veginn bjargast hjá okkur í dag, engin óhöpp og lítið um útköll vegna fólks í vandræðum. Fólk virðist halda sig að mestu heima, það er lítil umferð og fáir á ferli, sem er gott. Þannig að þetta fór mun betur en á horfðist,“ segir Aðalsteinn Júlíusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. 

„Gengið þolanlega hjá okkur“

Svipaða sögu er að segja úr umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Þar hafa fáir verið á ferli og lögreglan ekki þurft að fara í nein útköll vegna veðurs. „Þetta hefur gengið þolanlega hjá okkur, það er fáir á ferðinni og í raun allt með kyrrum kjörum í okkar umdæmi,“ segir Pétur Björnsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra. 

Fjallvegir víða lokaðir eða illfærir

Færð er enn slæm á Norður- og Austurlandi. Stórhríð er á Vatnsskarði og skafrenningur á Öxnadalsheiði. Þá er Ólafsfjarðarvegur lokaður sem og Fjarðarheiði, Öxi og vegurinn um Fagradal. Sverrir Unnsteinsson hjá Vegagerðinni hefur hvatt fólk til að fresta ferðalögum.

„Það er ágætisspá á morgun. Það á að lægja í nótt og í fyrramálið og bæði á morgun og um helgina er bara ágætisspá og ætti að vera miklu skemmtilegra að ferðast í þannig veðri,“ segir Sverrir.