Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Talaði ekki við móður sína eftir sjálfræðissviptinguna

Mynd: RÚV / RÚV

Talaði ekki við móður sína eftir sjálfræðissviptinguna

03.12.2020 - 12:57

Höfundar

„Þetta er rosaleg aðgerð og ég talaði ekki við hana í tvö ár en fann svo út að hún hefði bjargað lífi mínu,“ segir Elísabet Kristín Jökulsdóttir sem var nauðug vistuð á geðdeild eftir að hafa lengi verið með miklar ranghugmyndir um að vera útvalin af guði. Hún segir frá mögnuðu lífshlaupi í nýrri skáldsögu.

Elísabet Jökulsdóttir var í gær tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsögu sína Aprílsólarkuldi. Bókin er sjálfsævisöguleg en í henni eru sannir atburðir settir í skáldsagnarform. Sagan hefst á Ísafirði en gerist svo að mestu leyti í húsi á Suðurgötu í Reykjavík sem Elísabet bjó lengi í. „Hún kallar þetta Höll Sumarlandsins,“ segir Elísabet um aðalpersónuna sem byggist á henni sjálfri. „Þetta er eiginlega hús ástar og geðveiki.“ Elísabet sagði Agli Helgasyni frá Aprílsólarkulda í Kiljunni.

Í tíu ár hafði Elísabet reynt að skrifa söguna en var ekki viss hvernig hún ætti að setja hana upp þar til einn daginn kviknaði á perunni. Hún hafði verið að velta fyrir sér hvernig hún ætti að staðfæra persónur og atburði en ákvað loks að segja hana eins og hún er og þá flæddi hún fram. „Ég settist niður og þá bara kom hún á nokkrum vikum. Ég sat bara og skrifaði og skrifaði í keng.“

Sagan er sögð í þriðju persónu um Védísi, sem er Elísabet sjálf. Hún segir að ef hún hefði skrifað hana í fyrstu persónu sæti hún líklegast uppi með þúsund blaðsíðna doðrant. „Í staðinn bý ég til þessa persónu sem heitir Védís. Þetta er bara einn demantur. Ein brotin og geislandi saga.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Missir föður sinn og verður ástfangin

Elísabet missti föður sinn skyndilega árið 1978 og skömmu eftir fráfallið verður hún ástfangin. Þá togast í henni flóknar og erfiðar tilfinningar sem hún á erfitt með að eiga við. „Svo er verið að reykja hass og þetta einhvern veginn fer allt saman í eina allsherjar sögu. Í lokinn veikist hún á geði,“ segir Elísabet.

Ég held að þegar maður getur ekki tjáð tilfinningar sínar, sérstaklega þegar maður verður fyrir ástvinamissi, þá fari þetta allt í flækju innra með manni. Það er sagt að þegar fólk verði fyrir áföllum þá verði það veikt hvort sem það er veikt á sál eða líkama.

Hún byrjar að vera með sætasta manninum í bænum en sambandið verður fljótt háskalegt. „Hann fær vald yfir henni eins og pabbinn hafði kannski haft. Það er þessi ofboðslega viðurkenningaþörf,“ segir hún.

Reynir að komast í sjónvarpið að frelsa mannkyn

Í kjölfarið byrjar hún að fá ranghugmyndir. Þar sem hún situr inni í húsinu finnst henni sem hún öðlist viðurkenningu guðs og verður sannfærð um að hann hafi valið sig til góðra verka.

Hún er alltaf á leið upp í sjónvarp til að frelsa heiminn því þá muni hún frá viðurkenningu frá öllum heiminum. Svolítið eins og Greta Thunberg nema Greta Thunberg er ekki geðveik.

Mamma eins og Al Capone og Lína langsokkur

Loks er hún svipt sjálfræði fyrir atbeina móður sinnar og farið með hana á geðdeild. Elísabet man vel eftir þeirri reynslu og var ekki þakklát móður sinni fyrir uppátækið. „Þetta er rosaleg aðgerð og ég talaði ekki við hana í tvö ár en fann svo út að hún hefði bjargað lífi mínu. Ég hefði getað orðið krónískur geðsjúklingur.“

Það eru augljósar töggur í móðurinni sem tekur málin í sínar hendur.

Hún er náttúrulega eins og Al Capone og amma líka. Þær voru svona þessar konur. Mamma er náttúrulega Bernharð Alba af fyrstu gerð. En svo var hún Lína langsokkur líka.

Vinkar stelpunni í húsinu

Það er góð tilfinning að sjá æskuheimilið sem Elísabet saknar alltaf. „Þetta er náttúrulega hús ástar og geðveiki og það eru svo sterkar tilfinningar sem ég hef fundið í þessu húsi,“ segir hún. „Ég held ég búi þarna enn á einhvern hátt. Mig dreymir húsið mikið og alltaf þegar ég geng fram hjá vinka ég stelpunni sem bjó þar.“

Rætt var við Elísabetu Jökulsdóttur í Kiljunni á RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hringdi í fasteignasala og villti á sér heimildir