Elísabet Jökulsdóttir var í gær tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsögu sína Aprílsólarkuldi. Bókin er sjálfsævisöguleg en í henni eru sannir atburðir settir í skáldsagnarform. Sagan hefst á Ísafirði en gerist svo að mestu leyti í húsi á Suðurgötu í Reykjavík sem Elísabet bjó lengi í. „Hún kallar þetta Höll Sumarlandsins,“ segir Elísabet um aðalpersónuna sem byggist á henni sjálfri. „Þetta er eiginlega hús ástar og geðveiki.“ Elísabet sagði Agli Helgasyni frá Aprílsólarkulda í Kiljunni.
Í tíu ár hafði Elísabet reynt að skrifa söguna en var ekki viss hvernig hún ætti að setja hana upp þar til einn daginn kviknaði á perunni. Hún hafði verið að velta fyrir sér hvernig hún ætti að staðfæra persónur og atburði en ákvað loks að segja hana eins og hún er og þá flæddi hún fram. „Ég settist niður og þá bara kom hún á nokkrum vikum. Ég sat bara og skrifaði og skrifaði í keng.“
Sagan er sögð í þriðju persónu um Védísi, sem er Elísabet sjálf. Hún segir að ef hún hefði skrifað hana í fyrstu persónu sæti hún líklegast uppi með þúsund blaðsíðna doðrant. „Í staðinn bý ég til þessa persónu sem heitir Védís. Þetta er bara einn demantur. Ein brotin og geislandi saga.“