Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ólafur Helgi kominn í leyfi úr dómsmálaráðuneytinu

03.12.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ólafur Helgi Kjartansson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, er kominn í leyfi frá störfum sínum í dómsmálaráðuneytinu, samkvæmt upplýsingum fréttastofu, vegna rannsóknar héraðssaksóknara, sem snýr meðal annars að meintu broti á þagnarskyldu hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Tveir starfsmenn lögregluembættisins á Suðurnesjum, saksóknari og skjalastjóri, hafa sömuleiðis verið sendir í leyfi vegna málsins. Fréttablaðið greindi fyrst frá því í morgun og fullyrti að búið væri að yfirheyra Ólaf Helga og starfsmennina tvo.

Tímabundinn eftirmaður Ólafs sendi tilkynninguna

Úlfar Lúðvíksson, núverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, staðfestir við fréttastofu að hann hafi sent tvo starfsmenn í leyfi. Hann segir að tímabundinn forveri hans í starfi, Grímur Hergeirsson, hafi sent Héraðssaksóknara tilkynningu um málið og það sé nú til rannsóknar.

Ólafur Þór Hauksson staðfestir að málið sé til rannsóknar og að tilkynningin hafi borist í október. Hann vill ekki tjá sig frekar um málið.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu snerist tilkynningin um bréf sem Ólafur Helgi sendi dómsmálaráðuneytinu í ágúst um málefni starfsmanna sinna og veikindaleyfi þeirra. Bréfið rataði til Fréttablaðsins, sem fjallaði um innihald þess. Þá var, samkvæmt upplýsingum fréttastofu, jafnframt tilkynntur grunur um mögulegt skjalafals og einnig umboðssvik vegna greiðslu á reikningi frá almannatengli.

Ólafur Helgi vill ekki tjá sig

Ólafur Helgi vildi ekkert tjá sig um málið þegar fréttastofa náði af honum tali nú fyrir stundu. Hann lét af stöfum hjá lögreglunni á Suðurnesjum í ágúst og hóf störf sem sérfræðingur á sviði landamæramála í dómsmálaráðuneytinu. Hann hefur haft aðstöðu hjá Sýslumanninum á Suðurnesjum.

Mikil ólga hafði þá verið innan embættisins um skeið, eins og ítarlega var fjallað um í fjölmiðlum.

Allir fara í leyfi fái þeir réttarstöðu sakbornings

Frá dómsmálaráðuneytinu fengust þau svör að ekki væri hægt að veita upplýsingar um málefni einstakra starfsmanna. Hins vegar svaraði ráðuneytið spurningum um það hvernig farið væri með málefni starfsmanna sem fengju réttarstöðu sakbornings við rannsókn yfirvalda.

„Ráðuneytið lítur svo á að meðan sú  staða er uppi fari starfsmaður í tímabundið leyfi,“ segir í svari ráðuneytisins. „Ekki er vitað um að neinar undantekningar hafi verið gerðar frá þeirri reglu,“ segir enn fremur í svari Hafliða Helgasonar, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins.