Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Nick Cave sakar BBC um að afskræma menningarverðmæti

epa08792702 Australian musician Nick Cave attends a press conference to promote his exhibition 'Stranger Than Kindness' in Copenhagen, Denmark, 02 November 2020. The show runs at The Black Diamond, a part of Danish Royal Library, until 13 February 2021.  EPA-EFE/Olafur Steinar Gestsson  DENMARK OUT
 Mynd: EPA

Nick Cave sakar BBC um að afskræma menningarverðmæti

03.12.2020 - 13:44

Höfundar

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur ákveðið að ekki megi spila upphaflegu útgáfu jólalagsins Fairytale of New York á BBC Radio 1, en markhópur hennar er ungt fólk. Tónlistarmaðurinn Nick Cave er fokvondur yfir málinu.

Ástæðan er að í laginu, sem er með hljómsveitinni The Pogues, segir: „You scumbag, you maggot. You cheap lousy faggot. Happy Christmas you arse, I pray God it's our last.“ Orðfærið þykir ekki boðlegt og hefur BBC því ákveðið að spila breytta útgáfu lagsins á BBC Radio 1. Þó verður lagið spilað í upphaflegri útgáfu á BBC Radio 2 og öðrum rásum BBC.

BBC birti tilkynningu um málið, þar sem ákvörðunin er varin: „Við erum meðvituð um að yngri hlustendur eru sérstaklega viðkvæmir fyrir níðyrðum sem snúa að kyni og kynhneigð. Eftir vandlega umhugsun hefur Radio 1 ákveðið að flytja útgáfu lagsins þar sem söngtexta Kirsty MacColl [söngkonu sveitarinnar] hefur verið breytt og útgáfan skaffar.“

Ástralski tónlistarmaðurinn Nick Cave brást ókvæða við og birti grein á vefsvæði sem hann heldur úti og nefnist Red Hand Files. „BBC, hliðvörður brothættra tilfinninga okkar, sem er ævinlega annt um okkar hag, heldur áfram að afskræma ómetanlegar menningarminjar,“ segir hann.

Þar skrifar hann einnig: „Að hægt sé að einfaldlega skipta út orði eða setningu í lagi án þess að umtalsverður skaði hljótist af getur einungis verið haldið fram af þeim sem hafa ekki hundsvit á viðkvæmu eðli lagasmíða. Að skipta út orðinu „faggot“ fyrir merkingarleysuna „haggard“ rústar laginu með því að fletja út mikilvægasta og glannalegasta augnablik þess.“

Cave segir að með því spillist lagið, það tapi hreinskilni, heiðri og heilindum með því að krjúpa fyrir BBC. Hann viðurkennir að hann sé ekki í stöðu til að meta það hversu særandi eða móðgandi orðfærið er, sérílagi út frá sjónarhóli yngra fólks. Honum þyki hins vegar hreinskiptnara að banna spilun lagsins með öllu á rásinni og með því hlífa útlagaeðli þess og virðingu.

Bréfið í heild má lesa hér.

Tengdar fréttir

Tónlist

Fann 30 ára gamalt viðtal við Nick Cave

Fairytale of New York besta erlenda jólalagið

Tónlist

Sigurður Guðmundsson vinsælastur um jólin