
Næstu mánuðir erfiðir í Bandaríkjunum
Í gær fór fjöldi sjúklinga með COVID-19 á sjúkrahúsum vestra yfir eitt hundrað þúsund í fyrsta skipti frá upphafi faraldursins. Hvergi annars staðar hafa fleiri dáið úr sjúkdómnum eða um 275 þúsund manns. Undanfarið hafa staðfest dauðsföll af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum verið yfir tvö þúsund á dag.
Redfield segir að ekkert lát sé á útbreiðslu veirunnar og hún sé hraðari en á fyrri stigum faraldursins. Desember, janúar og febrúar verði erfiðir, jafnvel hinir verstu í bandarískri heilbrigðissögu.
Ekki hefur enn verið gefið leyfi fyrir bóluefnum við kórónuveirunni í Bandaríkjunum, en ákvarðana er að vænta um miðjan mánuð eða nokkru síðar. Verði þau samþykkt verður hægt að hefja bólusetningar fyrir árslok.
Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, dró ekki úr áhyggjum sínum af ástandinu á fjarfundi með starfsfólki og eigendum smærri fyrirtækja vestra í gær. Hann sagði að jólin yrðu erfið, en menn yrðu að líta á staðreyndir og skilja alvarleika málsins, því fram í janúar kynnu allt að 250.000 til viðbótar að deyja í Bandaríkjunum úr COVID-19.
Biden sagði að leggja yrði áherslu á að kveða niður kórónuveiruna og auka til muna skimun fyrir henni.