Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Leyfðu sölu Heinaste gegn haldi í söluvirðinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kveikur - RÚV
Namibísk yfirvöld afléttu kyrrsetningu af togaranum Heinaste og leyfðu sölu hans gegn því að söluvirðið yrði áfram kyrrsett til tryggingar mögulegum upptökukröfum vegna sakamálsins sem þar er rekið á grunni Samherjaskjalanna. Þetta kemur fram í samningi um kaupin og einnig í bréfi sem lögfræðingur namibíska dómsmálaráðuneytisins sendi í byrjun síðustu viku. Fréttastofa hefur bæði skjölin undir höndum.

Kaupverðið 2,3 milljarðar

Samkvæmt samningnum er kaupverðið samtals 18 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 2,3 milljarða íslenskra króna, og á að greiðast í sex greiðslum frá undirritun samningsins og út nóvember 2023. Kaupandinn er namibíska útgerðarfélagið Tunacor Fisheries, sem hefur breytt nafni skipsins í Tutungeni. Á heimasíðu Samherja segir að Tunacor eigi sér meira en 60 ára rekstrarsögu, geri í dag út fimmtán skip og veiti meira en 2.100 manns atvinnu í Namibíu. Þá segir að Heinaste hafi verið verðmætasta eign Samherja í Namibíu.

„Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því í nánu samráði við namibísk stjórnvöld að leggja niður starfsemi í Namibíu á vegum félaga sem tengjast Samherja,“ segir á vef Samherja í gær. „Hluti af þessari vinnu laut að kyrrsetningu togarans Heinaste. Bréf um afléttingu kyrrsetningarinnar var undirritað af ríkissaksóknara Namibíu í gær [1. desember] samhliða sölu skipsins. Aðrar eignir í Namibíu, sem eru óverulegar, sæta enn kyrrsetningu en mál tengd þeim verða leyst á komandi mánuðum í samráði við stjórnvöld,“ segir þar enn fremur.

Greiðslurnar inn á reikning sem ríkið hefur hald í

Lögfræðingur dómsmálaráðuneytis Namibíu sendi bréf á lögmanninn Elize Angula, fulltrúa meðeiganda Samherja að Heinaste, 26. nóvember. Bréfið varðar kröfu lögmannsins um að stöðva söluna. Ráðuneytisstarfsmaðurinn segir að ágreiningur í hluthafahópnum sé innanhússmál og komi ráðuneytinu ekki við.

Úr bréfi lögfræðingsins í namibíska dómsmálaráðuneytinu.

„Það er ekki rétt að segja að ríkið sé að selja og koma skipinu í verð,“ segir í bréfinu. „Það samþykkti einungis að leysa skipið undan kyrrsetningu gegn því að lagt verði hald á söluandvirðið í staðinn. Söluandvirðinu verður haldið kyrrsettu þar til tekin verður ákvörðun um upptökukröfu í sakamálinu.“

Í samkomulagsinu um kaupin er einnig skýrt að allar greiðslurnar fyrir skipið skuli lagðar inn á reikning sem namibísk yfirvöld hafa hald í. Ríkislögmaður Namibíu er á meðal þeirra sem undirrita samkomulagið.

Úr samkomulaginu um söluna á Heinaste.