Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Krónan styrkist hratt

03.12.2020 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Peningar
Gengi krónunnar hefur styrkst um allt að tíu prósent gagnvart helstu gjaldmiðlum á síðustu vikum. Forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans segir að jákvæðar fréttir um þróun bóluefna gegn kórónuveirunni hafi aukið bjartsýni á gjaldeyrismarkaði.

 

Krónan veiktist mikið eftir að faraldurinn hófst í vor. Verulega dró úr gjaldeyristekjum þegar ferðaþjónustan stöðvaðist og á sama tíma varð samdráttur í útflutningi á sjávarafurðum.

Síðustu vikur og daga hefur krónan hins vegar verið að styrkjast gagnvart helstu gjaldmiðlum.

Í byrjun nóvembermánaðar kostaði einn bandaríkjadalur 140 krónur en kostar nú 126 krónur. Pundið hefur farið úr 181 krónu niður í 169. Evran úr 163 krónum í 152. Danska krónan úr tæpum 22 íslenskum krónum í 20,5.

Daníel Svavarsson forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans segir að krónan hafi verið styrkjast mjög hratt á undanförnum dögum.

„Það er einkum tvennt sem skýrir þetta. Í fyrsta lagi mjög jákvæðar fréttir af þróun bóluefnis þannig að það er að draga úr óvissu varðandi hvenær faraldrinum muni ljúka. Í öðru lagi þá var mjög stór aðili í ríkisskuldabréfum að selja sig út af markaðinum í október. Hann er búinn að loka sinni stöðu þannig að straumurinn er að breytast. Það er að verða meira nettó innflæði núna inn á markaði heldur en útflæði eins og var áður þannig að krónan hefur verið að styrkjast nokkuð hratt síðustu daga,“ segir Daníel.

Hann segir erfitt að spá um framhaldið og hvort krónan haldi áfram að styrkjast. Gengið í dag sé þó mun lægra en það var áður en faraldurinn hófst.

„Góðu tíðindin eru þau að þetta mun hjálpa mjög vel við að ná verðbólgunni aftur niður. Það stefndi í það að verðbólgan færi yfir 4 prósent upp úr áramótum en þessi þróun síðustu daga mun hjálpa verulega við það að ná niður verðbólguþróuninni. Haldi krónan sér á svipuðum slóðum og hún er í dag þá á ég von á því að verðbólgan muni koma mjög hratt niður eftir áramót,“ segir Daníel.

Hlutabréf í Kauphöllinni hækkuðu líka í verði í dag. Mest hækkuðu hlutabréf í Icelandair um 9,9%. Hlutabréf í félaginu hafa hækkað um rúmlega helming frá hlutabréfaútboðinu í september. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV