Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Flutningabíll valt á ófærum Þröskuldum

03.12.2020 - 16:07
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Flutningabíll valt og endaði utan vegar á Þröskuldum um klukkan eitt í nótt. Vegurinn var þá ekki lokaður, en engu að síður merktur ófær vegna stórhríðar. Bíllinn var að flytja fisk suður en samkvæmt björgunarsveitinni á Hólmavík verður hann réttur við og losaður af farminum á morgun eftir að lægir.

Jón Sigmundsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík, segir það ekki óvanalegt að flutningabílar keyri Þröskulda þótt að vegurinn sé merktur ófær. Þessi bíll hafi ekki verið sá eini sem fór þar um í nótt.

 „Það var mikið af flutningabílum að fara þarna yfir, að flytja fisk og alls kyns nauðsynjavöru á milli. Mestir flutningar fara fram á kvöldin og nóttunni,“ segir Jón.

Vegurinn er enn merktur ófær en Jón segir að nú sé einblínt á að halda Steingrímsfjarðarheiði og Innstrandavegi opnum. 

„Við reiknum með því að fara strax í fyrramálið að moka, en Þröskuldar verða ekki opnaðir í dag.“